Handbolti

Magdeburg og Kielce mætast í úrslitum Meistaradeildarinnar

Siggeir Ævarsson skrifar
Andreas Wolff markvörður Kielce var hetja liðsins í leiknum í gær
Andreas Wolff markvörður Kielce var hetja liðsins í leiknum í gær Vísir/Getty

Pólska liði Kielce tryggði sér í gær sæti í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í handbolta þegar liðið lagði frönsku meistarana í PSG með einu marki, 25-24. Liðið mætir þýsku meisturunum í Magdeburg í úrslitum í dag kl. 16:00

Líkt og fyrri undanúrslitaleikurinn var þessi afar jafn og spennandi. Hinn þýski markvörður Kielce, Andreas Wolff, var hetja liðsins á ögurstundu en hann varði í tvígang á lokamínútunni. Fyrst skot frá Luc Stein þegar 20 sekúndur voru eftir, og svo aftur frá Elohim Prandi þegar fjórar sekúndur lifðu leiks, eftir að PSG höfðu stolið boltanum og brunað í sókn.

Haukur Þrastarson er leikmaður Kielce en var fjarri góðu gamni í gær. Hann sleit krossband í desember og er því enn að jafna sig á þeim meiðslum. Haukur er ekki eina tenging Kielce við Ísland, en þjálfari liðsins er „Íslandsvinurinn“ Talant Dujshebaev.

Úrslitin hljóta að teljast töluverð vonbrigði fyrir PSG en þar er á ferðinni eitt dýrasta handboltalið heimsins. Þeir fá þó að leika um bronsið í sárabætur og mæta þar Barcelona kl. 13:15. Báðir leikirnir eru í beinni útsendingu í opinni dagskrá á vefsíðu EHF.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×