Handbolti

Selfyssingar sækja spænska skyttu

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Álvaro Mallols Fernandez leikur með Selfyssingum í Olís-deild karla á næsta tímabili.
Álvaro Mallols Fernandez leikur með Selfyssingum í Olís-deild karla á næsta tímabili. Selfoss

Handknattleiksdeild Selfoss hefur samið við Álvaro Mallols Fernandez um að leika með liðinu í Olís-deild karla í handbolta næstu tvö árin.

Selfyssingar greina frá félagsskiptunum á samfélagsmiðlum sínum, en Álvaro er 23 ára gömul rétthent skytta sem hefur leikið í heimalandinu með liði í heimabæ sínum, Íslendinganýlendunni Torrevieja, að því er fram kemur í tilkynningu Selfyssinga.

Selfyssingar hafa misst nokkra mikilvæga útispilara úr sínum röðum eftir að síðasta tímabili lauk og því var ljóst að styrkja þyrfti liðið fyrir komandi átök í Olís-deild karla.

Leikstjórnandinn Guðmundur Hólmar Helgason gengur í raðir Hauka frá Selfyssingum í sumar og þá fer örvhenta skyttan Ísak Gústafsson til deildarmeistara Vals. Selfyssingar missa einnig skyttuna Karolis Stropus sem er farinn aftur til heimalands síns, Litháen.

Selfyssingar höfnuðu í sjöunda sæti Olís-deildar karla á nýafstöðnu tímabili, sem er þeirra versti árangur síðan liðið komst upp í deild þeirra bestu árið 2016, áður en liðið féll úr leik í átta liða úrslitum úrslitakeppninnar gegn FH.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×