Körfubolti

Miami skrúfaði frá hitanum í fjórða leikhluta og jafnaði

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bam Adebayo treður í öðrum úrslitaleik Miami Heat og Denver Nuggets.
Bam Adebayo treður í öðrum úrslitaleik Miami Heat og Denver Nuggets. getty/Mark J. Terrill

Miami Heat jafnaði metin í úrslitaeinvígi NBA-deildarinnar í körfubolta með þriggja stiga sigri á Denver Nuggets í nótt, 108-111.

Það blés ekki byrlega fyrir Miami sem var mest fimmtán stigum undir og átta stigum undir þegar 4. leikhluti hófst.

Þar hrukku leikmenn Miami í gang, sneru dæminu sér í vil og komust með tólf stigum yfir. Þeir voru hins vegar nálægt því að kasta því forskoti frá sér.

Nikola Jokic, sem átti stórleik, minnkaði muninn í 108-111 og Jimmy Butler klikkaði svo á þriggja stiga skoti hinum megin. Denver gat því jafnað með þristi en skot Jamals Murray geigaði. Miami varð þar með fyrsta liðið í rúma tvo mánuði til vinna leik á heimavelli Denver.

Gabe Vincent var stigahæstur í jöfnu liði Miami með 23 stig. Butler og Bam Adebayo skoruðu 21 stig hvor. Max Strus gerði fjórtán stig og Duncan Robinson tíu, öll í 4. leikhluta.

Jokic héldu engin bönd hjá Denver en hann skoraði 41 stig og hitti úr sextán af 28 skotum sínum. Murray skoraði átján stig og gaf tíu stoðsendingar.

Liðin mætast í þriðja sinn á heimavelli Miami aðfaranótt fimmtudags.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×