Vladímír Pútin Rússlandsforseti hefur undirritað lög sem afnema aðild Rússlands að Samningnum um hefðbundinn herafla í Evrópu (CFE). Samningurinn var undirritaður árið 1990 á milli aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins og Varsjárbandalagsins, sem var undir forystu Sovétríkjanna.
Sagði samningurinn til um hversu mikið af hergögnum hvor blokk mætti hafa í Evrópu. Svo sem 20 þúsund stórskotaliðsbyssur, 20 þúsund skriðdreka og 7 þúsund herflugvélar.
Eftir að Varsjárbandalagið féll vildu Rússar breytingar á samningnum, sem gerð var á fundi árið 1999 en aldrei fullgild vegna dvalar herliðs Rússa í rússneskumælandi héröðum Georgíu og Moldóvu. Rússar sjálfir hafa ekki framfylgt samningnum síðan árið 2007.
Afvopnun verði að vera gagnkvæm
Í svari utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn Vísis um málið segir að CFE sé talinn mikilvægasti afvopnunarsamningurinn á sviði hefðbundinna vopna.

„Ríkjandi aðstæður vegna innrásar Rússlands í Úkraínu hafa nú þegar steypt framkvæmd afvopnunarsamninga í óvissu, sérstaklega þá er varða gereyðingarvopn, sem er verulegt áhyggjuefni,“ segir í svari Sveins H. Guðmarssonar fjölmiðlafulltrúa. „Þótt Rússar hafi ekki framfylgt CFE-samningnum fyrir sitt leyti frá 2007 er sú ákvörðun stjórnvalda í Moskvu að segja sig formlega frá honum engu að síður enn eitt bakslagið í alþjóðlegri viðleitni til afvopnunar.“
Aðspurður um viðbrögð Íslands segir Sveinn að afstaða Íslands í afvopnunarmálum sé skýr og byggist á þjóðaröryggisstefnu fyrir Íslands, sem segir meðal annars að Ísland beiti sér fyrir afvopnun á alþjóðavettvangi.
„Á hinn bóginn verður afvopnun aldrei raunhæf nema hún sé gagnkvæm og það er og verður áfram grundvallaratriði í afstöðu íslenskra stjórnvalda,“ segir hann.
Ekki í takt við raunveruleikann
Vísir greindi frá því snemma í maí að líklegt væri að Rússar segðu sig frá CFE samningnum, sem 30 ríki hafa undirritað.

„Með því að hafna CFE er Rússland að fjarlægja plagg sem er ekki í takt við raunveruleikann en er ekki að ljúka samtalinu um takmarkanir á hefðbundnum vopnum,“ sagði Konstantín Kosasjov, talsmaður efri deildar rússneska þingsins.