Körfubolti

Pétur kveður Blika og tekur við Keflavík

Sindri Sverrisson skrifar
Pétur Ingvarsson og Magnús Sverrir Þorsteinsson, formaður körfuknattleiksdeildar Keflavíkur, handsala samninginn.
Pétur Ingvarsson og Magnús Sverrir Þorsteinsson, formaður körfuknattleiksdeildar Keflavíkur, handsala samninginn. Keflavík

Pétur Ingvarsson hefur verið ráðinn nýr þjálfari Keflavíkur og mun því stýra liðinu í Subway-deild karla í körfubolta á næstu leiktíð.

Pétur kemur til Keflavíkur eftir að hafa stýrt Breiðabliki síðustu fimm ár. Liðið féll á fyrstu leiktíð undir stjórn Péturs en vann sig upp aftur 2021 og vakti sérstaklega athygli á fyrri hluta leiktíðarinnar í vetur, með sínum hraða og skemmtilega körfubolta sem skilaði liðinu sjö sigrum í fyrstu níu umferðunum. Liðið endaði þó í 10. sæti.

Pétur tekur við af Hjalta Þór Vilhjálmssyni sem stýrði Keflvíkingum í fjögur ár áður en leiðir skildu í vor. Keflavík endaði í 4. sæti deildarkeppninnar á síðustu leiktíð og féll svo úr leik í 8-liða úrslitum gegn Tindastóli sem varð svo Íslandsmeistari.

Pétur, sem er 53 ára gamall, á langan feril að baki sem þjálfari og hefur stýrt liðum Hamars, Ármanns, Skallagríms og Hauka, auk nú síðast Breiðabliks. Hann skrifar undir tveggja ára samning við Keflvíkinga sem segjast binda miklar vonir við ráðninguna.

„Það er mikil gleði með þessa ráðningu en síðustu ár hafa lið Péturs vakið athygli fyrir hraðan og skemmtilegan körfubolta. Stjórn körfuknattleiksdeildar bindur miklar vonir við þessa ráðningu og fer inn í sumarið full af bjartsýni,“ segir í yfirlýsingu félagsins. Þar kemur einnig fram að vænta megi tíðinda af leikmannamálum og að vinna sé lögð í þau mál alla daga.

Sjálfur segist Pétur vera sannfærður um að hægt sé að koma liðinu á þann stall sem Keflvíkingar vilja vera á.

„Verkefnið að endurvekja Keflavíkurhraðlestina er formlega hafið,“ segir Pétur í yfirlýsingu Keflvíkinga.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.