Umfjöllun, myndir og bikarafhending: ÍBV - Haukar 25-23 | Eyja­menn Ís­lands­meistarar eftir dramatík

Einar Kárason skrifar
ÍBV er Íslandsmeistari árið 2023.
ÍBV er Íslandsmeistari árið 2023. Vísir/Vilhelm

ÍBV er Íslandsmeistari í handknattleik eftir 25-23 sigur á Haukum í oddaleik í Vestmannaeyjum í kvöld. Þetta er þriðji Íslandsmeistaratitill Eyjamanna sem unnu 3-2 sigur í einvíginu.

Komið var að stundinni sem hver einasti handboltafylgjandi landsins hafði beðið eftir. Oddaleikur í Vestmannaeyjum um sjálfan Íslandsmeistaratitilinn milli ÍBV og Hauka. Eyjamenn unnu fyrstu tvo leikina í einvíginu áður en Hafnfirðingar settust í bílstjórasætið og tóku næstu tvo. Því var jafnt og mátti ekkert útaf bregða í fimmta og síðasta leiknum.

Það var allt lagt í sölurnar fyrir leik í kvöld.Vísir/Vilhelm

Það voru heimamenn sem skoruðu fyrstu tvö mörk leiksins og tóku þannig snemma stjórn á leiknum. ÍBV endaði leik fjögur á jákvæðan hátt eftir að hafa verið undir í einu og öllu og tóku þann leik með sér í fyrri hálfleik leiksins í dag. Liðin voru ekki langt frá hvoru öðru framan af en um miðjan hálfleik náðu Eyjamenn að skapa sér smá kodda í stöðunni 7-4 og komust stuttu síðar í 9-5.

Þegar fimm mínútur eftir lifðu var staðan 11-7 og ÍBV haldið góðri fjögurra marka forustu. Haukar voru þó hvergi af baki dottnir og skoruðu síðustu þrjú mörk fyrri hálfleiks. Þegar gengið var til búningsherbergja var staðan því 11-10 og áhugaverðar þrjátíu mínútur framundan.

Andri Már Rúnarsson átti góðan leik fyrir Hauka.Vísir/Vilhelm

Aron Rafn Eðvaldsson, markvörður Hauka, átti stóran þátt í því að munurinn var ekki nema eitt mark en hann varði níu bolta, en markvarðavandræði ÍBV hélt áfram með einungis tvö skot varin í fyrri hálfleik.

Gestirnir skoruðu fyrsta mark síðari hálfleiks og jöfnuðu með því leikinn í fyrsta sinn. Eyjamenn skoruðu næsta mark og Haukar jöfnuðu, 12-12. ÍBV hrökk þá í gang og skoruðu næstu þrjú mörkin. Þeir héldu forustunni með góðum sóknarleik og öguðum varnarleik en um miðbik hálfleiksins var munurinn sá sami, 18-15.

Aron Rafn var frábær hjá Haukum.Vísir/Vilhelm

Mest náði ÍBV fimm marka forskoti í síðari hálfleik en þegar skammt var eftir minnkuðu Hafnfirðingar muninn í tvö mörk í stöðunni, 20-20, og líklega farið óþægindahrollur um margan Eyjamanninn. Þær áhyggjur hurfu fljótt því ÍBV skoraði næsta mark ásamt því að Haukar töpuðu boltanum. 

Eyjamenn spiluðu lokamínútur leiksins af mikilli fagmennsku og nýttu tíma sinn á bolta vel. Gestirnir skoruðu síðasta mark leiksins en það var ekki nóg því sigurinn var Eyjamanna, 25-23, að loknum frábærum handboltaleik eftir stórkostlegt einvígi tveggja risa í íþróttinni.

Af hverju vann ÍBV?

Eftir tvo slæma leiki mætti ÍBV með bakið upp að vegg á meðan allur meðbyr var með Haukunum. Hinsvegar byrjuðu Eyjamenn leikinn vel og voru til að mynda yfir allan fyrri hálfleikinn, en það hafði gengið illa allt einvígið. Varnarleikurinn stóð vel þrátt fyrir að vantað hafi upp á markvörslu en lykilmenn liðsins stigu upp og skiluðu góðu dagsverki.

Eyjamenn voru kátir í leikslok.Vísir/Vilhelm

Hverjir stóðu upp úr?

Rúnar Kárason, mesti markaskorari í úrslitakeppni á Íslandi, var hreint út sagt frábær. Tíu mörk frá honum í dag, ásamt því að standa vörn. Andri Már Rúnarsson, leikmaður Hauka, hefur stimplað sig inn sem einn allra mest spennandi leikmaðurinn á Íslandi og skoraði hann átta mörk í kvöld, mörg stórglæsileg, ásamt því að vera með fimm löglegar stöðvanir, rétt eins og Arnór Viðarsson hjá ÍBV. Næst markahæstu menn liðanna voru voru með fjögur og þrjú mörk.

Fögnuðurinn var ósvikinn í leikslok.Vísir/Vilhelm

Aron Rafn Eðvaldsson var frábær í marki Hauka í fyrri hálfleik en það dró af honum í þeim síðari sem mögulega hafði áhrif á úrslit leiksins. Lítið við Aron að sakast enda verið stórkostlegur í þessu einvígi.

Ísak Rafnson og Ívar Bessi Viðarsson voru drjúgir þegar það kom að varnarleiknum ásamt fleirum. Adam Haukur Baumruk sá um það hlutverk hjá Haukunum og var hann til að mynda með tíu löglegar stöðvanir.

Hvað gekk illa?

Markvarsla ÍBV var áfram vandamál en blessunarlega fyrir heimamenn stóð vörnin vel og Haukar áttu erfitt með að skapa sér góð færi. Margar langar sóknir sem enduðu með vondum tilraunum að marki eða töpuðum boltum.

Leikmenn ÍBV fögnuðu vel í klefanum.Vísir/Vilhelm

Hvað gerist næst?

Heimamenn munu að öllum líkindum fagna titlinum vel og innilega á meðan þeir fljúga á skýi inn í sumarfríið á meðan Haukar þurfa að sætta sig við silfrið og taka Herjólf í Landeyjar.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira