Handbolti

„Stoltari af því að skila af mér góðum leikmönnum frekar en bikurum“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Erlingur Birgir Richardsson kallar á sína menn i úrslitaeinvíginu á móti Haukum.
Erlingur Birgir Richardsson kallar á sína menn i úrslitaeinvíginu á móti Haukum. Vísir/Hulda Margrét

Erlingur Birgir Richardsson stýrir ÍBV í síðasta sinn í kvöld þegar liðið mætir Haukum í hreinum úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn.

ÍBV er á heimavelli í kvöld en þetta verður þriðji leikurinn í röð þar sem liðið getur tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn sem kom síðast til Vestmannaeyja árið 2018.

Erlingur Birgir gerir ekki of mikið úr mikilvægi þess fyrir sig að enda þjálfaraferil sinn hjá ÍBV með Íslandsmeistaratitli sem hann vann á sínum tíma sem þjálfari HK. Nú er hann hins vegar að þjálfa uppeldisfélagið.

„Auðvitað væri gaman að enda þetta á bikar en þetta snýst ekki alltaf um það að mínu mati. Þegar ég horfi til baka þá er ég stoltari af því að skila af mér góðum leikmönnum, frekar en bikurum. Ég lít frekar á leikmennina sem bikara, frekar en úrslit í ákveðnum leikjum, en það væri vissulega gaman að enda þetta á Íslandsmeistaratitli,“ sagði Erlingur í viðtali í Morgunblaðinu í dag.

„Fyrir mér snýst þjálfun, sérstaklega hérna á Íslandi, um það að búa til góða leikmenn og mér finnst okkur hafa tekist vel til með það. Við höfum verið að gefa mörgum ungum og efnilegum leikmönnum tækifæri og fyrir mér er hlutverk þjálfarans fyrst og fremst að búa til góða leikmenn,“ sagði Erlingur.

Oddaleikur ÍBV og Hauka hefst klukkan 19.00 í kvöld og verður að sjálfsögðu sýndur beint á Stöð 2 Sport. Upphitun frá Eyjum hefst klukkan 18.00 og það verður mikið um dýrðir enda verður húsið troðfullt og mikill áhugi á leiknum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.