Handbolti

Lena Margrét tók U-beygju á Hellisheiðinni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lena Margrét Valdimarsdóttir er komin aftur í Fram.
Lena Margrét Valdimarsdóttir er komin aftur í Fram. fram

Handboltakonan Lena Margrét Valdimarsdóttir er hætt við að fara í Selfoss og er gengin í raðir Fram á nýjan leik.

Undanfarin tvö tímabil hefur Lena leikið með Stjörnunni. Í vor samdi hún við Selfoss ásamt Perlu Ruth Albertsdóttur og Kristrúnu Steinþórsdóttur og skrifaði undir tveggja ára samning við félagið.

Selfyssingar féllu hins vegar úr Olís-deild kvenna eftir tap fyrir ÍR-ingum í umspili, 3-2. Það virðist hafa breytt stöðunni því ekkert verður því af félagaskiptum Lenu til Selfoss. Hún er þess í stað gengin í raðir Fram og skrifaði undir tveggja ára samning við uppeldisfélag sitt.

„Fram er uppeldisfélag mitt, hér þekki ég marga og það er gott að vera komin aftur. Liðið er mjög vel mannað og ljóst að við munum vera í mikilli baráttu í vetur. Einar þjálfari er með skýra sýn á hvernig við ætlum að spila og hvað við ætlum að gera. Það verður gaman að taka þátt í því,“ sagði Lena í tilkynningu frá Fram.

Lena var ein af markahæstu leikmönnum Olís-deildarinnar í vetur með 109 mörk. Hún hefur spilað fimm A-landsleiki.

Fram endaði í 4. sæti Olís-deildarinnar og féll úr leik fyrir Haukum, 2-0, í sex liða úrslitum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×