Helgi stýrði KR í tvö tímabil en á seinna tímabilinu féll liðið niður úr Subway-deildinni.
Samkvæmt tilkynningu körfuknattleiksdeildar KR var það samkomulag Helga og stjórnar deildarinnar að hann léti af störfum.
Sem leikmaður átti Helgi ríkan þátt í gríðarlegri velgengni KR-inga á þessari öld en hann varð Íslandsmeistari með liðinu alls sjö sinnum, árin 2000, 2009, 2014, 2015, 2016, 2018 og 2019, og bikarmeistari árið 2016. Helgi lék einnig 95 A-landsleiki.
Þetta er í annað sinn sem að Helgi hættir sem þjálfari KR en hann var ráðinn spilandi þjálfari liðsins árið 2012, áður en Finnur Freyr Stefánsson tók svo við liðinu ári síðar.