Körfubolti

Ó­stöðvandi í NBA deildinni með giftingar­hringinn sinn á skónum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nikola Jokic með Magic Johnson bikarinn sem hann fékk fyrir að vera kosinn mikilvægastur í úrslitaeinvígi Vesturdeildar NBA.
Nikola Jokic með Magic Johnson bikarinn sem hann fékk fyrir að vera kosinn mikilvægastur í úrslitaeinvígi Vesturdeildar NBA. AP/Ashley Landis

Nikola Jokic var ekki kosinn mikilvægasti leikmaður NBA deildarinnar í körfubolta þriðja árið í röð en hann hefur sýnt og sannað mikilvægi sitt í úrslitakeppninni.

Denver Nuggets er komið í úrslitaeinvígið í fyrsta sinn í sögu félagsins og það ekki síst fyrir frammistöðu serbneska miðherjans.

Jokic er 211 sentímetrar á hæð en leiklestur hans og frábærar sendingar gerir mótherjum hans mjög erfitt fyrir. Liðsfélagarnir elska líka að spila með honum enda fá þeir boltann oftast um leið og þeir koma sér í færi.

Jokic varð sá fyrsti í sögunni til að ná átta þrennuleikjum í sömu úrslitakeppni og hann var með 27,8 stig, 14,5 fráköst og 11,8 stoðsendingar að meðaltali þegar Nuggets sló úr Lakers 4-0 í úrslitum Vesturdeildarinnar.

Það vita kannski ekki allir að Jokic heiðrar eiginkonu sína með sérstökum hætti í hverjum leik.

Hann má ekki spila með giftingarhringinn á hendinni en vill alls ekki skilja við hann og bindur hann því í staðinn í reimarnar á skónum sínum.

Jókerinn giftist æskuást sinni Nataliju Macesic í Serbíu í október 2020. Þau hafa verið saman frá árinu 2013 (síðan hann var átján ára) og eiga saman dótturina Ognjena sem kom í heiminn árið 2021.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×