Körfubolti

Grindvíkingar bæta líka leikmönnum við kvennaliðið sitt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Charisse Fairley er ætlað stórt hlutverk hjá Grindavíkurliðinu næsta vetur.
Charisse Fairley er ætlað stórt hlutverk hjá Grindavíkurliðinu næsta vetur. Körfuknattleiksdeild Grindavíkur

Grindvíkingar eru að safna liði í körfuboltanum þessa dagana og það á ekki bara við um karlalið félagsins sem hefur fengið marga öfluga leikmenn að undanförnu.

Grindvíkingar hafa líka samið við þýsk-bandaríska framherjann Charisse Fairley um að leika með liðinu í Subway-deild kvenna á næsta tímabili.

Charisse er fædd í Þýskalandi árið 1999 en hefur síðustu þrjú tímabil leikið í háskólaboltanum vestanhafs þar af síðasta vetur með CSU Pueblo.

Charisse er hávaxin framherji, eða 180 cm, sem getur bæði leikið fyrir innan og utan teiginn en hún er líka fín þriggja stiga skytta. Hún tók við stærra hlutverki og auknum mínútum í vetur hjá sínu liði, þar sem hún var að skila 11 stigum og 5 fráköstum að meðaltali í leik.

„Charisse er spennandi leikmaður með mikið „upside“ og hún á örugglega eftir að taka næsta stökk á sínum ferli með okkur. Það sést alveg þegar maður skoðar ferilinn hennar í skólanum að þetta er leikmaður sem er tilbúinn að takast á við stærra hlutverk og meiri ábyrgð. Það má segja að hún sé fyrsta púslið í myndina fyrir næsta tímabil hjá okkur en við erum hvergi nærri hætt!“ - Sagði Ingibergur Þór Jónasson, formaður körfuknattleiksdeildar Grindavíkur. í frétt á miðlum félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×