Körfubolti

Axel: Þetta er ólýsanleg tilfinning

Siggeir Ævarsson skrifar
Axel Kárason fagnar hér í leikslok.
Axel Kárason fagnar hér í leikslok. Vísir/Hulda Margrét

Axel Kárason hefur marga fjöruna sopið með Tindastól á sínum ferli en líkt og aðrir Skagfirðingar var hann að fagna Íslandsmeistaratitlinum í fyrsta skipti í kvöld.

„Það er erfitt að lýsa því, þetta er eiginlega eins og svart og hvítt. Við erum búnir að vera með gott lið lengi og flott félag og félagsanda en það er ákveðin lína þarna hvort þú sért búinn að landa titlinum eða ekki. Við erum allavega komnir yfir hana núna. Þetta er ólýsanleg tilfinning,“ sagði Axel í viðtali strax að leik loknum í kvöld.

Tindastóll byrjaði leikinn ekki nógu vel og leiddu Valsmenn með þrettán stigum eftir fyrsta leikhlutann. Þeir komu sér þó inn í leikinn á ný og spennan var gríðarleg í seinni hálfleik.

„Þetta byrjaði kannski ekki vel sóknarlega hjá okkur og maður hefur minni áhyggjur af því. Ef vörnin er nógu góð, þá getum við unnið okkur aftur inn í leikinn hvernig sem við gerum það. Svo hitta þeir eitthvað, við náum áhlaupi og við setjum þrista og eitthvað svoleiðis,“ bætti Axel við.

Axel náði svo ekki að klára viðtalið því hann þurfti að rjúka í bikarafhendingu Tindastóls.

„Við þurftum bara að passa að gefast ekki upp, fara aðeins yfir sóknina,“ sagði Axel áður en hann rauk áfram í fagnaðarlæti Tindastóls sem munu eflaust standa langt fram á nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×