Úrslitaeinvígi Vals og Tindastóls hefst í Origohöllinni að Hlíðarenda í kvöld og ljóst að færri komast að en vilja.
„Auðvitað eru það bara forréttindi fyrir okkur að fá að vera með þennan leik og svo þessa leiki fyrir norðan,“ segir Svali í samtali við Guðjón Guðmundsson, íþróttafréttamann Stöðvar 2.
„Það eru forréttindi ef það er meiri eftirspurn heldur en framboð, það er eitthvað sem allur markaðurinn er að kalla á alltaf. Mikil forréttindi og gleðiefni.“
Sögur hafa verið á kreiki um að Valsmenn hefðu hæglega geta selt 5000 miða á leikinn ef leikið væri í stærri höll.
„Við vitum það ekki, ég fullyrði það ekki en hvort það séu fimm- eða tíu þúsund, það er margföld eftirspurn eftir miðum,“ segir Svali. „Það er gaman og við eigum að njóta þess, auðvitað er gaman líka að bölsótast yfir því af hverju viðkomandi fær ekki miða en það er eins með alla viðburði sem eru skemmtilegir, það er meiri eftirspurn heldur en framboð.“
Sætum verður bætt við á gólfinu við báða enda vallarins en þó er ekki hægt að bæta við sætum í hvaða pláss sem er.
„Við leysum þetta með kærleik og leyfum kappinu ekki að bera fegurðina ofurliði. Við bætum við sætum eins og við gerðum fyrir einvígi liðanna á síðasta tímabili en samt bara upp að því marki að við ráðum við það og sé upplifun og skemmtun fyrir þá sem sækja leikinn.“
Félag eins og Valur sé vant því að koma að stórum viðburðum sem þessum, það sé því gott og reynslumikið fólk sem kemur að skipulagningu.