Handbolti

Fjölnismenn halda vonum sínum um Olís-deildarsæti á lífi

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Fjölnismenn gátu leyft sér að fagna í leikslok
Fjölnismenn gátu leyft sér að fagna í leikslok Facebook/Fjölnir Handbolti

Fjölnir vann lífsnauðsynlegan eins marks sigur er liðið heimsótti Víking í þriðja leik liðanna í umspili um sæti í Olís-deild karla í handbolta á næsta tímabili, 24-25.

Víkingar höfðu unnið fyrstu tvo leiki eivígisins og liðið gat því tryggt sér sæti í deild þeirra bestu með sigri í dag.

Fjölnismenn voru þó ekki tilbúnir að gefast upp og þeir náðu þriggja marka forskoti snemma leiks. Víkingar unnu sig þó hægt og rólega aftur inn í leikinn og voru búnir að jafna metin þegar um tíu mínútur voru eftir af fyrri hálfleik. Víkingar náðu svo forystunni í fyrsta skipti í leiknum undir lok fyrri hálfleiks, en Fjölnismenn jöfnuðu á ný og staðan var 13-13 þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Eftir jafnar upphafsmínútur í síðari hálfleik náði heimamenn í Víking upp þriggja marka forskoti í stöðunni 20-17. Fjölnismenn skoruðu þá næstu þrjú mörk leiksins og jöfnuðu metin á ný þegar um átta mínútur voru til leiksloka. Víkingar virtust þó vera að tryggja sér sigurinn þegar liðið náði tveggja marka forskoti þegar tæpar fimm mínútur voru til leiksloka og liðið var með boltann. Markvarslan hjá Fjölni datt þá heldur betur í gang og gestirnir skoruðu síðustu þrjú mörk leiksins og tryggðu sér um leið sigurinn, 24-25.

Þorleifur Rafn Aðalsteinsson var markahæstur í liði Fjölnis með sjö mörk, en í liði Víkinga var Gunnar Valdimar Johnsen atkvæðamestur, einnig með sjö mörk.

Víkingur og Fjölnir þurfa því að mætast að minnsta kosti einu sinni í viðbót í umspili um laust sæti í Olís-deildinni. Fjórði leikur liðanna fer fram í Dalhúsum næstkomandi fimmtudag klukkan 19:30.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×