Handbolti

„Ef við ætlum að taka Berge eða Krickau er eins gott að þeir brenni fyrir þetta“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Christian Berge þjálfaði norska landsliðið á árunum 2014-22. Hann tók við hinum nýríka ofurliði Kolstad í fyrra.
Christian Berge þjálfaði norska landsliðið á árunum 2014-22. Hann tók við hinum nýríka ofurliði Kolstad í fyrra. getty/Nikola Krstic

Ólafur Stefánsson er ekkert sérstaklega spenntur fyrir því að fá erlendan þjálfara fyrir íslenska karlalandsliðið í handbolta.

HSÍ leitar nú að nýjum landsliðsþjálfara eftir að Guðmundur Guðmundsson hætti eftir HM í Svíþjóð og Póllandi. Nokkrir erlendir þjálfarar hafa verið orðaðir við starfið, meðal annars Michael Apelgren, Nicolej Krickau og Christian Berge. 

Sá síðastnefndi er þjálfari Kolstad í Noregi og þjálfaði norska landsliðið lengi. Undir hans stjórn unnu Norðmenn til tveggja silfurverðlauna á heimsmeistaramótum. Í samtali við fjölmiðla í heimalandinu staðfesti hann áhuga frá Íslandi. Krickau vildi aftur á móti ekki tjá sig um íslenskan áhuga.

Ólafur var í löngu viðtali í Handkastinu þar sem hann ræddi um landsliðsþjálfaraleitina og möguleikana í stöðunni. Hann vill helst að Dagur Sigurðsson og Snorri Steinn Guðjónsson taki við landsliðinu og erlendur þjálfari heillar hann ekki mikið.

„Ef við ætlum að fá útlendinga, þú þarft að þekkja karakter leikmannanna sem eru núna svo vel. Þetta er svo mikið stjórnunarstarf. Þetta er ekki eins og í gamla daga þegar Sovétríkin voru með liðið sitt í tvö ár þrisvar á dag. Þú þarft að hafa svo mikinn skilning á leikmönnunum, hver getur spilað síðustu tvær mínúturnar í leiknum, hver er að fara að byrja, hver höndlar pressu, hver ekki, hver er í formi, hver ekki,“ sagði Ólafur.

„Mér finnst það tala fyrir innlendum þjálfara. Auðvitað megum við ekki vera of miklir Íslendingar og þora ekki að taka neitt að utan. En ef við ætlum að taka Berge eða Krickau er eins gott að þeir fokking brenni fyrir þetta. Þeir þurfa bara að leigja íbúð heima og búa á Íslandi finnst mér. Það er alveg nóg pressa á Berge í Kolstad og ætla svo að hoppa eina og eina helgi eða viku til Íslands. Mér finnst það frekar langsótt.“

Ólafur var þó hrifinn af þeirri hugmynd Arnars Daða Arnarssonar að Berge tæki við landsliðinu með Snorra Stein Guðjónsson sem sinn aðstoðarmann og væntanlegan eftirmann.

Hlusta má á viðtalið við Ólaf í Handkastinu í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×