Handbolti

Berge staðfestir áhuga frá Íslandi en Krickau vill ekki tjá sig

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Christian Berge gæti orðið næsti þjálfari íslenska karlalandsliðsins í handbolta.
Christian Berge gæti orðið næsti þjálfari íslenska karlalandsliðsins í handbolta. Nikola Krstic/MB Media/Getty Images

Christian Berge, þjálfari norska verðandi ofurliðsins Kolstad, hefur staðfest þann orðróm að hann sé á blaði HSÍ yfir mögulega landsliðsþjálfara Íslands í handbolta. Nicolej Krickau, þjálfari danska liðsins GOG, hefur hins vegar ekki viljað tjá sig um málið.

Leit að eftirmanni Guðmundar Guðmundssonar stendur enn yfir eftir að leiðir hans við íslenska landsliðið skildu í febrúar fyrr á þessu ári. Arnar Daði Arnarsson, handboltasérfræðingur og stjórnandi hlaðvarpsins Handkastsins, sagði frá því á Twitter-síðu sinni í gær að hávær orðrómur væri í gangi um það að Berge væri líklegur kandídat og að Krickau gæti orðið aðstoðarmaður hans.

Berge hefur nú staðfest það í samtali við Adressa.no að áhugi sé frá Íslandi, en eins og áður segir er hann nú þjálfari norsku bikar- og deildarmeistaranna í Kolstad. Landsliðsmennirnir Janus Daði Smárason og Sigvaldi Björn Guðjónsson eru leikmenn Kolstad.

Berge var um árabil þjálfari norksa landsliðsins í handbolta, en hann þjálfaði liðið frá 2014 til 2022. Undir hans stjórn unnu Norðmenn til silfurverðlauna á HM í tvígagn (2017 og 2019) og bronsverðlauna á EM einu sinni (2020).

Hins vegar vildi Daninn Nikolej Krickau ekki tjá sig um orðróminn um að hann gæti komið inn í þjálfarateymi Berge ef sá norski myndi taka við íslenska landsliðinu í samtali við TV2.

Krickau er aðeins 36 ára gamall, en þrátt fyrir það nokkuð reynslumikill þjálfari. Hann tók við danska liðinu Skanderborg árið 2013 og stýrði liðinu i fjögur ár áður en hann tók við GOG þar sem hann er enn í starfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×