Skoðun

Að kannast við klúðrið – um pitsu­ost og á­byrgð ráð­herra

Ólafur Stephensen skrifar

Félag atvinnurekenda hefur undanfarið vakið athygli á málsmeðferð yfirvalda, einkum og sér í lagi Skattsins og fjármála- og efnahagsráðuneytisins, í máli sem varðar tollflokkun pitsuosts sem blandaður er með jurtaolíu. Málið hefur verið til umfjöllunar í fjölmiðlum og fulltrúar FA röktu það fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis sl. miðvikudag.

Tollflokkun breytt vegna þrýstings hagsmunaaðila

Málið snýst um það að eftir að Mjólkursamsalan og Bændasamtökin þrýstu á stjórnvöld að breyta tollflokkun vörunnar, beitti fjármálaráðuneytið sér fyrir því að Skatturinn færði vöruna á milli tollflokka; hætti að flokka hana í flokk 2106, sem ekki ber tolla, og færði hana þess í stað í flokk 0406, sem ber háa tolla. Þrýstingurinn frá MS og bændum var til kominn vegna þess að Mjólkursamsalan kveinkaði sér undan því að sitja ekki ein að markaðnum fyrir rifinn ost á pitsur á veitingastöðum og í matvælaframleiðslu. Stjórnendur MS sáu ofsjónum yfir takmarkaðri samkeppni frá innflutningi.

Málið varðar mikla hagsmuni; þannig fékk félagsmaður FA, sem hafði flutt ostinn inn í flokki 2106 samkvæmt ráðleggingum starfsmanna Skattsins, 230 milljóna króna bakreikning eftir að tollflokkuninni var breytt, af því að varan hefði verið „ranglega“ tollflokkuð!

Embættismenn sögðu sig frá málinu – töldu lög brotin

Tollflokkunarsérfræðingar Skattsins voru algjörlega ósammála hinni nýju tollflokkun og endaði það með því að heil deild hjá Skattinum, tollafgreiðsludeildin, sagði sig frá málinu. Yfirtollvörður sagði eiðsvarinn fyrir Héraðsdómi að fjármálaráðuneytið hefði í raun verið að fá embættið til að tollflokka vöruna ranglega. „Tollskráin er partur af tollalögunum, viðauki við tollalög. Og ég sem tollvörður og yfirmaður þessarar deildar get ekki lagt til að við myndum fremja ólög og þar með segi ég mig frá þessu,“ sagði embættismaðurinn fyrir dómi.

Tölvupósturinn sem var stungið undir stól

Fjármálaráðuneytið og Skatturinn byggðu allan sinn málatilbúnað í málinu á einum tölvupósti frá starfsmanni skatta- og tolladeildar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, en þar sagðist hann telja að flokka ætti vöruna í 0406. Skýrt var reyndar tekið fram í tölvupóstinum að hann væri ekki formleg afstaða ESB. Ákvörðun um að breyta tollflokkuninni var samt tekin þegar í stað. Tólf dögum eftir að sá tölvupóstur var sendur, sendi sami embættismaður annan póst, sagðist ekki hafa haft rétta innihaldslýsingu vörunnar og dró álit sitt til baka. Þessum pósti stakk Skatturinn undir stól, af ástæðum sem ekki hafa verið útskýrðar. Fyrirtækið sem í hlut átti fékk þannig ekki að vita af þessu lykilgagni fyrr en hátt í tveimur og hálfu ári síðar, þrátt fyrir að eiga skýlausan rétt á öllum gögnum málsins samkvæmt stjórnsýslulögum.

Gögnin sem leynt var fyrir Landsrétti

Fyrirtækið höfðaði mál, tapaði því fyrir Héraðsdómi og áfrýjaði til Landsréttar. Áður en réttarhaldið fór fram og áður en frestur til að leggja gögn fyrir dóminn rann út, fengu bæði fjármálaráðuneytið og ríkislögmaður send formleg bréf sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins annars vegar og Alþjóðatollastofnunin hins vegar höfðu sent Skattinum, um að hin nýja tollflokkun Íslands væri röng. Þessi bréf fékk fyrirtækið ekki heldur að sjá, þótt þau styddu málstað þess í málaferlum við ríkisvaldið. Það er annað brot á stjórnsýslulögum. Fjármálaráðuneytið og ríkislögmaður lögðu bréfin ekki fyrir Landsrétt, sem þýðir að dómur var kveðinn upp í málinu á grundvelli ófullnægjandi gagna og á röngum forsendum.

Evrópusambandið bar ágreining um tollflokkunina undir Alþjóðatollastofnunina, sem tók ákvörðun í málinu í síðasta mánuði. Tollflokkunarfundur stofnunarinnar komst að þeirri niðurstöðu að varan ætti heima í flokki 2106, þar sem hún var tollflokkuð áður en stjórnvöld létu undan þrýstingi hagsmunaaðila í landbúnaðinum.

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra, sem er yfirmaður bæði ráðuneytisins og Skattsins og ber ábyrgð á athöfnum þeirra samkvæmt stjórnarskránni og lögum um ráðherraábyrgð, svaraði fyrir þessa makalausu stjórnsýslu í fyrirspurnatíma á Alþingi sl. miðvikudag. Ekki var að heyra á ráðherranum að hann hygðist axla neina ábyrgð á þeim afglöpum undirmanna sinna sem hér hafa verið rakin, en hann sagði þó bæði ráðuneytið og Skattinn reiðubúin að „veita fullt gagnsæi um forsendur fyrir ákvarðanatöku“ og „veita allar upplýsingar sem við getum.“ Þó það nú væri – bara svolítið seint þegar upplýsingum hefur verið leynt misserum saman. Ekkert kom hins vegar fram um hvernig ráðherrann hygðist rétta hlut fyrirtækisins sem í hlut á.

Óhjákvæmilegt er annað en að gera athugasemdir við rangfærslur og útúrsnúninga ráðherrans, sem voru furðumargir í aðeins þriggja mínútna máli á þessum þingfundi.

Tollflokkum við bara eins og okkur sýnist?

Bjarni Benediktsson sagði: „...íslenskir dómstólar dæma eftir íslenskum lögum. Þeir dæma eftir þeim lögum og reglum sem við höfum sett á grunni fullveldis okkar um þessi efni. Það stenst ekki að framkvæmd stjórnvalda við tollaákvarðanir sé augljóslega á skjön við alþjóðlegar skuldbindingar og við verðum að hafa það í huga að við Íslendingar höfum forræði yfir þessum málum rétt eins og önnur ríki.“

Það er rétt hjá ráðherranum að íslenzka ríkið hefur forræði á tollamálum, þ.e. hversu háir tollar eru lagðir á vörur, innan marka þeirra alþjóðlegu fríverzlunarsamninga sem Ísland hefur gert. En það er alls ekki þannig að íslenzka ríkið geti bara tollflokkað vörur að eigin geðþótta. 150 ríki heims hafa tekið upp hina alþjóðlegu tollskrá Alþjóðatollastofnunarinnar og skilvirk alþjóðaviðskipti byggjast á því að sameiginlegur skilningur ríki um tollflokkun vöru. Það er t.d. ekki hægt að tollflokka sement sem hey. Varan, sem hér um ræðir, á heima í flokki 2106, bæði að áliti Evrópusambandsins, sem Ísland á meirihluta sinna vöruviðskipta við, og að mati Alþjóðatollastofnunarinnar.

Ríkisendurskoðun benti í febrúar í fyrra á að breytingin á tollflokkuninni hefði búið til misræmi í tölum um viðskipti Íslands og ESB: „...telur Ríkisendurskoðun ljóst að ósamræmi af þessu tagi sé á skjön við grundvallarmarkmið hins samræmda vöruflokkunarkerfis Alþjóðatollastofnunarinnar. Alþjóðleg samræming tollskrárnúmera á sex stafa grundvelli ætti að tryggja að vara sé ekki að taka kaflaskiptum við flutning í milliríkjaviðskiptum,“ sagði í skýrslu Ríkisendurskoðunar um tollframkvæmd vegna landbúnaðarafurða.

Ef það fær að standa að íslenzka ríkið horfi bara framhjá hinni alþjóðlegu tollskrá og tollflokki vörur eins og því sýnist, blasir við algjör glundroði í milliríkjaviðskiptum Íslands.

Ráðuneytið sem lét tölvupóst frá ESB ráða afstöðu sinni

Bjarni Benediktsson sagði: „Ríki utan Evrópusambandsins, eins og Noregur og Liechtenstein, fara hvert fyrir sig dálítið ólíkar leiðir og það er hvergi þannig að formleg afstaða Evrópusambandsins sé ráðandi atriði um niðurstöðu yfirvalda á hverjum stað. Þannig myndi ég segja að það væri býsna langsótt að halda því fram að dómari á Íslandi, sem ætlar að dæma eftir íslenskum lögum sem um efnið gilda, hefði látið það ráða afstöðu sinni hvað segði í tölvupósti frá embættismanni Evrópusambandsins. Ég held að það sé býsna langsótt afstaða.“

Þetta er hárrétt hjá Bjarna. Enginn dómari myndi leggja óformlegt gagn eins og tölvupóst frá embættismanni til grundvallar í máli sem varðar jafnmikla hagsmuni. Fjármálaráðuneytið hefur hins vegar margstaðfest við Félag atvinnurekenda að það var einmitt hinn óformlegi tölvupóstur frá embættismanni Evrópusambandsins sem undirbyggði þá afstöðu þess að breyta ætti tollflokkuninni. „Varðandi upplýsingarnar frá ESB þá var það umræddur tölvupóstur frá Alexander Blaha til tollyfirvalda, dags. 4. júní sl., sem ráðuneytið byggði sín sjónarmið á varðandi tollflokkunina,“ sagði þannig í tölvuskeyti embættismanns í ráðuneytinu til greinarhöfundar í nóvember 2020. (Leturbreyting greinarhöfundar)

Þessi stjórnsýsla er einkar óvönduð svo ekki sé meira sagt. Ráðuneytið byggði á óformlegri afstöðu, sem síðan var dregin til baka nokkrum dögum síðar (reyndar var engum sagt frá þeirri afstöðubreytingu). Tollflokkuninni var breytt án þess að leita fyrst eftir formlegri afstöðu ESB eða Alþjóðatollastofnunarinnar. Þegar þau bréf lágu fyrir meira en ári síðar, voru þau engu látin breyta um tollframkvæmdina og voru falin fyrir fyrirtækinu, sem stóð í málarekstri við ríkið, og fyrir dómstólnum sem dæmdi í málinu. Óhætt er að fullyrða að dómari hefði litið til hinnar formlegu afstöðu alþjóðastofnana, þegar hann hefði metið t.d. hvort ákvörðun um breytta tollflokkun stæðist alþjóðlegar skuldbindingar Íslands.

Á þessari stjórnsýslu ber Bjarni Benediktsson ábyrgð, hvort sem hann vissi af þessum afglöpum undirmanna sinna eða ekki.

Skipti ráðuneytið sér ekki af tollflokkuninni?

Bjarni Benediktsson sagði: „Ég lít bara þannig á að það sé skylda okkar í ráðuneytinu að ganga eftir því við Skattinn að það sé tryggt að menn séu ekki að flytja inn vöru í röngum tollflokki. Ég skammast mín ekkert fyrir að segja að það sé ein af eftirlitsskyldum okkar gagnvart þeim stofnunum sem undir ráðuneytið heyra. En að við höfum þá skoðun að vara eigi að vera í einum tollflokki umfram aðra er hins vegar rangt, eins og mér fannst hv. þingmaður vera að gefa í skyn.“

Hér snýr ráðherrann enn út úr og talar gegn betri vitund. Þetta mál gekk þannig fyrir sig vorið 2020 að eftir að MS og Bændasamtökin fóru á stjá og kröfðust breytinga á tollflokkuninni, spurðist ráðuneytið vissulega fyrir hjá Skattinum um tollflokkun vörunnar. Sérfræðingar Skattsins voru harðir á því að tollflokkunin væri rétt, en lögðu til að búin yrðu til ný tollnúmer fyrir mjólkurvörur með íblandaðri jurtaolíu í flokki 1906 og 2106, sem Alþingi myndi svo leggja á verndartolla ef pólitískur vilji væri fyrir því. Um slíka breytingu á tollskrá birti fjármálaráðuneytið auglýsingu í Stjórnartíðindum. Bændasamtökin sendu ráðuneytinu bréf þar sem þau lögðust eindregið gegn því að þessi leið væri farin. Nokkrum dögum síðar kom fyrri óformlegi pósturinn frá embættismanni ESB og sama dag afturkallaði ráðuneytið nýju tollnúmerin og ákveðið var að flokka vöruna í 0406. Þar lét framkvæmdavaldið hagsmunaaðila í raun ráða því að verndartollur var lagður á vöru, í stað þess að Alþingi tæki þá ákvörðun eins og stjórnarskráin gerir ráð fyrir.

Hefur fjármálaráðuneytið ekki þá skoðun að vara eigi að vera í einum tollflokki umfram aðra? Jú það hafði það nefnilega í þessu máli. Vitnum aftur í tölvuskeyti frá embættismanni ráðuneytisins til greinarhöfundar, frá því í nóvember 2020: „Í ljósi fyrirliggjandi gagna [tölvupóstsins frá embættismanni ESB] ákvað ráðuneytið að afturkalla þær breytingar sem gerðar voru á tollskránni með auglýsingu nr. 35/2020, þ.e. þær breytingar sem varða hina nýju tollflokka í 19. og 21. kafla, og tók ný auglýsing þess efnis gildi þann 9. júní 2020. Þá var þeim skilaboðum komið áleiðis til Tollgæslustjóra að tollflokka beri umræddan Mozzarella ost í samræmi við þær nýju upplýsingar sem lágu fyrir í málinu. (Leturbreyting greinarhöfundar)

Þetta fer ekkert á milli mála – á grundvelli óformlegs tölvupósts frá embættismanni ESB, sem fjármálaráðherra segir réttilega að hafi lítið gildi, var tekin ákvörðun, þvert á mat sérfræðinga Skattsins. Sú ákvörðun kostaði fyrirtækið sem í hlut á hundruð milljóna króna og bjó til misræmi í milliríkjaviðskiptum Íslands. Ríkisvaldið gekk með þessum hætti erinda viðskiptahagsmuna eins fyrirtækis, Mjólkursamsölunnar, á kostnað keppinauta hennar sem flytja inn pitsuost.

Að gangast við ábyrgð

Undirritaður dregur ekki í efa að fjármálaráðherra vill gera það sem rétt er í þessu máli eins og öðrum. En í því skyni duga ekki útúrsnúningar og rangfærslur eða að hlaupast undan ábyrgð. Það sem þarf að gerast er þrennt. Í fyrsta lagi þarf að rétta hlut fyrirtækisins, sem í hlut á, og endurgreiða því þá tolla og sektarálag sem lagt var á vörurnar. Í öðru lagi þarf að breyta tollflokkun pitsuosts með jurtaolíu til rétts horfs. Í þriðja lagi þarf að leiðrétta þá stöðu að dómur Landsréttar, kveðinn upp á röngum forsendum, standi óhaggaður enda gengur hann þvert á alþjóðlegar skuldbindingar Íslands. Augljóst er að allar forsendur eru fyrir endurupptöku málsins fyrir dómstólum. Ráðherrann ætti að beita sér fyrir þessu og gangast þannig við ábyrgð sinni á klúðrinu.

Höfundur er framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×