Handbolti

Gísli næstmarkahæstur í jafntefli gegn Kiel

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Svekkjandi jafntefli fyrir Gísla og félaga.
Svekkjandi jafntefli fyrir Gísla og félaga. Vísir/Getty

Það var hádramatík á lokasekúndunum þegar Kiel og Magdeburg skildu jöfn í toppslag í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í dag.

Gísli Þorgeir Kristjánsson og félagar í Magdeburg leiddu með þremur mörkum í leikhléi en á lokamínútunum var allt í járnum og staðan jöfn, 34-34 þegar ein mínúta lifði leiks.

Heimamenn í Kiel lögðu af stað í sókn sem lauk með því að Gísli Þorgeir fiskaði ruðning á Sander Sagosen og því fengu gestirnir frá Magdeburg lokasóknina í leiknum.  Henni lauk með laglegu marki frá Key Smits eftir stoðsendingu Gísla en dómarar leiksins dæmdu markið ekki gilt, líklega metið að um leiktöf hafi verið að ræða en leikmenn Magdeburg voru æfir í leikslok.

Liðin eru í harðri baráttu um þýska meistaratitilinn ásamt toppliði Fuchse Berlin og Flensburg en Magdeburg er sem stendur í þriðja sæti deildarinnar.

Gísli Þorgeir var næstmarkahæstur í liði Magdeburg í dag með átta mörk úr tíu skotum ásamt því að leggja upp sex mörk en Key Smits var markahæstur með 10 mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×