KR þurfti lífsnauðsynlega á sigri að halda, enda höfðu Stjörnukonur unnið fyrstu tvo leiki einvígisins. Stjörnusigur hefði því þýtt það að liðið væri á leið í úrslit umspilsins, en KR-ingar væru úr leik.
KR-ingar höfðu góð tök á leik kvöldsins og leiddu með níu stigum að loknum fyrsta leikhluta. Sá munur var svo kominn upp í 14 stig þegar fyrri hálfleik lauk og gestirnir í KR unnu að lokum öruggan 20 stiga sigur, 63-83.
Violet Morrow fór fyrir liði KR í kvöld og skoraði 21 stig ásamt því að taka 19 fráköst. Í liði Stjörnunnar var Kolbrún María Ármannsdóttir atkvæðamest með 15 stig. Liðin mætast á nýjan leik á heimavelli KR næstkomandi sunnudag.
Þá vann Þór Akureyri góðan tíu stiga sigur gegn Snæfelli fyrr í kvöld, 73-63. Staðan í einvíginu fyrir leik kvöldsins var jöfn, en norðankonur hafa nú tekið 2-1 forystu og geta klárað dæmið á sunnudaginn.