Körfubolti

Svona lítur úr­slita­keppni Subway-deildarinnar út

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Valsmenn eiga titil að verja.
Valsmenn eiga titil að verja. Vísir/Bára

Deildarkeppni Subway-deildar karla í körfubolta lauk í gærkvöldi þegar heil umferð var leikin á sama tíma.

Fyrir lokaumferðina var ýmislegt sem gat gerst, enda deildin mjög jöfn og til að mynda voru þrjú lið sem börðust um seinasta lausa sætið í úrslitakeppninni fram á seinustu stundu.

Þá þurftu Keflvíkingar á sigri að halda gegn sjóðheitu liði Njarðvíkur til að tryggja sér þriðja sætið og Þór frá Þorlákshöfn gat stolið sjötta sæti deildarinnar af Grindvíkingum með sigri gegn Grindvíkingum á heimavelli.

Nú er hins vegar ljóst hvaða átta lið eru á leið í úrslitakeppni Subway-deildarinnar og hvaða lið mætast í umræddum átta liða úrslitum.

Íslands-, deildar-, og bikarmeistarar Vals mæta liði Stjörnunnar sem rétt skreið inn í úrslitakeppnina með sigri gegn föllnum KR-ingum í gær, en sigur hins fallliðsins, ÍR, kom í veg fyrir það að Höttur tæki seinasta úrslitakeppnissætið af Stjörnumönnum.

Njarðvík, sem hefur verið heitasta lið deildarinnar eftir áramót, mætir Grindavík og Haukar mæta næstheitasta liði deildarinnar eftir áramót, Þór Þorlákshöfn. Þá mætast Keflavík og Tindastóll einnig í líklega áhugaverðustu viðureign átta liða úrslitanna, en Keflvíkingar rétt misstu af þriðja sæti deildarinnar eftir naumt tap gegn nágrönnum sínum í Njarðvík í gær.

Átta liða úrslit, undanúrslit og úrslit verða eins og síðustu ár öll leikin með sama sniði, það er að vinna þarf þrjá leiki til að komast áfram. Hver sería getur því mest farið í fimm leiki. Liðið sem hafnaði í efsta sæti deildarkeppninnar mætir alltaf liðinu sem hafnaði í neðsta sæti deildarkeppninnar af þeim liðum sem eru eftir og svo koll af kolli. Viðureignir átta liða úrslitanna má sjá hér fyrir neðan.

Átta liða úrslitin

Valur (1.sæti) - Stjarnan (8. sæti)

Njarðvík (2. sæti) - Grindavík (7. sæti)

Haukar (3. sæti) - Þór Þorlákshöfn (6. sæti)

Keflavík (4. sæti) - Tindastóll (5. sæti)
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.