Handbolti

„Búið að vera ótrúlegt dæmi“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Snorri Steinn Guðjónsson var stoltur af sínum mönnum eftir að Valur féll úr leik í Evrópudeildinni.
Snorri Steinn Guðjónsson var stoltur af sínum mönnum eftir að Valur féll úr leik í Evrópudeildinni. Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, var stoltur af sínum mönnum þrátt fyrir tveggja marka tap gegn Göppingen í Evrópudeildinni í handbolta í kvöld. Valsmenn eru nú úr leik í Evrópueildinni eftir samanæagt níu marka tap gegn þýska liðinu í 16-liða úrslitum.

„Tilfinningin er bara beggja blands. Ég er náttúrulega svekktur að hafa ekki gert þetta að meira einvígi, en ég samt stoltur af strákunum í leiknum í kvöld. Þeir voru bara flottir og ég gat ekkert beðið um neitt meira,“ sagði Snorri Steinn að leik loknum.

„Það er náttúrulega líka skrýtin tilfinning að þetta sé búið. Þetta er búið að vera ótrúlegt dæmi, en við leyfum þessu aðeins að „sync-a“ inn og svo bara meltum við þetta þegar það er tíma til þess.“

Valsmenn máttu þola sjö marka tap í fyrri leiknum gegn Göppingen, en Snorri segir að tveggja marka tap í kvöld gefi mögulega betri mynd af muninum á liðunum.

„Já og nei. Þetta er líka bara gott lið - atvinnumannalið - og þeir spila þennan leik bara mjög klókt og vita alveg hvað þeir eru mörgum mörkum yfir þannig að það getur vel verið að þeir hafi nálgast þennan leik öðruvísi en ef staðan hefði verið jafnari. Auðvitað er hægt að fara í rosa mikið ef og hefði og ekki hafa áhyggjur af því, ég á eftir að gera það.“

„Auðvitað situr þessi leikur heima í okkur því við vorum bara ekki nógu góðir þar. Við komum okkur sjálfir í þá stöðu, en eins og ég segi þá verður nóg um ef og hefði næstu dagana.“

Þá átti Tryggvi Garðar Jónsson frábæran leik fyrir Val í kvöld og skoraði ellefu mörk fyrir liðið, en Snorri segir það ekki hafa komið sér sérstaklega á óvart.

Klippa: Snorri Steinn eftir tapið í Göppingen

„Nei, alls ekki. Þetta hefur verið langur aðdragandi fyrir hann og hann er búinn að vera mikið meiddur og þetta er erfið samkeppni og allt það. Við þurfum á þessu að því við erum laskaðir. Hann steig upp í dag og sýndi það að hann á skilið mínútur.“

Viðtalið við Snorra í heild sinni má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×