Umfjöllun og viðtöl: ÍR - Stjarnan 28-27 | ÍR-ingar hleypa fallbaráttunni í loft upp

Hjörvar Ólafsson skrifar
ÍR-ingar eru einu stigi frá því að komast upp að hlið KA sem er í sætinu fyrir ofan fallsvæði deildarinnar. 
ÍR-ingar eru einu stigi frá því að komast upp að hlið KA sem er í sætinu fyrir ofan fallsvæði deildarinnar.  VÍSIR/HULDA MARGRÉT

ÍR-ingar náðu í einkar mikilvægan sigur í baráttu sinni um að forðast fall úr Olís-deild karla í handbolta þegar liðið mætti Stjörnunni í Skógarseli í kvöld.

ÍR-ingar höfðu frumkvæðið frá upphafi leiksins og voru með forystuna lungann úr leiknum. Lokatölur í l leiknum urðu 28-27 ÍR í vil. 

Vörn ÍR-liðsins var afar öflug í þessum leik og þar fyrir aftan var svo Ólafur Rafn Gíslason í banastuði en hann varði 16 skot í leiknum, þar af eitt vítakast. Það mikilvægasta kom á lokasekúndu leiksins þegar hann varði skot Björgvins Þórs Hólmgeirssonar sem freistaði þess að jafna metin. 

Viktor Sigurðsson stýrði svo sóknarleik ÍR af miklum myndarbrag en hann skoraði átta mörk úr þeim 11 skotum sem hann tók. 

Leó Snær Pétursson var atkvæðamestur hjá Stjörnunni en hann skoraði níu mörk. 

ÍR hefur nú 10 stig í 11. og næstneðsta sæti deildarinnar og er einu stigi á eftir KA sem er í næsta sæti fyrir ofan fallsvæði deildarinnar. Stjarnan er hins vegar í sjötta sæti með 21 stig líkt og Fram. 

Bjarni Fritzson, þjálfari ÍR, var stoltur af lærisveinum sínum. VÍSIR/BÁRA

Bjarni: Nú er bara game on í fallbaráttunni

„Við hittum bara á hörkuleik hérna í kvöld og mér fannst frammistaðan bara mjög flott frá upphafi leiks allt til enda. Við náðum upp mjög góðri vörn og Ólafur Rafn varði vel. Við vorum svo agaðir í okkar sóknaraðgerðum jafnvel þó að Stjarnan væri að saxa á okkur og næðu að jafna metin,“ sagði Bjarni Fritzson, þjálfari ÍR, glaðbeittur að leik loknum.

„Nú er bara game on í fallbaráttunni og við ætlum klárlega að berjast allt til enda um að forðast fallið. Mér finnst bara hafa verið á góðu róli í allan vetur og erum að uppskera eins og við erum að sá.

Það eru margir leikmenn hjá okkur að þroskast hratt og bæta sig með hverju verkefninu sem er lagt upp í hendurnar á þeim. Nú bara höldum við áfram að reyna að hala inn stig og sjáum hverju það skilar,“ sagði hann um tímabilið hingað til og framhaldið.

Patrekur: Náðum engu flugi í þessum leik

„Við komumst bara eiginlega aldrei í takt við þennan leik og sóknarleikurinn var afar slakur allan leikinn. Við vorum bæði að tapa allt of mörgum boltum og svo bara að slútta illa af níu metrunum í þokkabót,“ sagði Patrekur Jóhannesson, þjálfari Stjörnunnar, um frammistöðu síns liðs. 

„Við erum svolítið búnir að vera að sleikja sárin eftir bikarhelgina og þar lendum við líka í því að missa Tandra Már sem bætist ofan á helst til langan meiðslalista. Við þurftum svolítið að pússla varnarleiknum upp á nýtt vegna þessara meiðsla. Það er hins vegar engin afsökun fyrir þessari spilamennsku. 

Mér fannst vörnin fín og markvarslan allt í lagi. Við töpum þessum leik miklu frekar hinum megin á vellinum. Við erum með leikmenn þar sem eiga að geta gert miklu betur og það skorti gæðin í sóknaraðgerðum okkar að þessu sinni,“ sagði Patrekur enn fremur. 

Patrekur Jóhannesson fór vel og lengi yfir málin með leikmönnum sínum eftir leikinn í Breiðholtinu í kvöld. Vísir/Diego

Af hverju vann ÍR?

ÍR-ingar náðu að veiða Stjörnumenn út í erfiðar sendingar og flóknar aðgerðir í sóknarleik sínum með sterkum varnarleik sínum. Þá varði Ólafur Rafn og markvarsla hans var stöðug allan leikinn. Sóknarleikur ÍR gekk smurt allan leikinn og það var ekkert stress þó svo að gestirnir gerðu nokkur áhlaup. 

Hverjir sköruðu fram úr?

Eins og áður segir var Ólafur Rafn sterkur á milli stanganna í marki ÍR. Bjarki Steinn Þórisson var svo eins og klettur í vörn ÍR og skapaði ófá færi fyrir félaga sínu á hinum enda vallarins með góðum blokkeringum á línunni. Það nýtti Viktor Sigurðsson sér til að mynda æði oft. 

Hvað gekk illa?

Það vantaði alla stemmingu í Stjörnuliðið og það var stutt í pirringinn um leið og hlutirnir voru ekki að ganga upp hjá leikmönnum liðsins. Reynslumiklir leikmenn liðsins gerðu sig seka um slæma tæknifeila trekk í trekk og færanýtingin hjá gestunum var ekki uppi á marga fiska.  

Hvað gerist næst?

ÍR-ingar sækja Aftureldingu heim í Mosfellsbæginn í næstu umferð deildarinnar á föstudaginn eftir slétta viku. Stjarnan fær Selfoss í heimsókn í Garðabæinn sama kvöld. ÍR mætir svo FH og Fram í fallbaráttu sinni í síðustu tveimur umferðum deildarinnar. 

Bein lýsing

Leikirnir


    Fleiri fréttir

    Sjá meira
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.