Körfubolti

Þjóðverjar sækjast eftir þjónustu spútnikstjörnu LA Lakers liðsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Austin Reaves er rosalega grimmur í því að keyra á körfuna. Hann hefur tekið 31 víti í síðustu tveimur leikjum Los Angeles Lakers.
Austin Reaves er rosalega grimmur í því að keyra á körfuna. Hann hefur tekið 31 víti í síðustu tveimur leikjum Los Angeles Lakers. AP/Mark J. Terrill

Austin Reaves er kallaður Hillbilly Kobe og hann er að lífga vel upp á leik Los Angeles Lakers í NBA-deildinni í körfubolta.

Reaves fékk tækifæri í byrjunarliðinu í nótt og svaraði með því að skora 25 stig og gefa 11 stoðsendingar. Hann frammistaða átti mikinn þátt í því að Lakers vann 122-111 sigur á Phoenix Suns.

Austin Reaves hafði skoraði 35 stig af bekknum í sigurleik á Orlando Magic í leiknum á undan. Malik Beasley varð því að víkja úr byrjunarliðinu og Reaves kom inn með flottum árangri.

Reaves kom sér meðal annars þrettán sinnum á vítalínuna og hitti úr sextíu prósent skota sinna. Hann var líka aðeins með tvo tapaða bolta á móti ellefu stoðsendingum.

Hinn 24 ára gamli Reaves er nú með 12,3 stig og 3,9 stoðsendingar að meðaltali á tímabilinu en framlag hans hefur verið dýrmætt í fjarveru LeBrons James.

Í marsmánuði hefur hann hækkað þessar tölur upp í 17,7 stig og 5,3 stoðsendingar að meðaltali í leik.

Reaves hefur líka vakið athygli fyrir utan Bandaríkin því nú berast fréttir af því að þýska körfuboltasambandið vilji fá hann til að spila fyrir þýska landsliðið á HM í haust.

Reaves er sagður þegar hafa rætt þennan möguleika við Dennis Schröder sem er þýskur landsliðsmaður og liðsfélagi hans hjá Lakers.

Reaves fékk þýskt ríkisfang á síðasta ári en amma hans er frá Þýskalandi. Spencer bróðir hans er líka með þýskt ríkisfang og spilar fyrir þýska liðið Brose Bamberg.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×