Nokkur titringur hefur verið á alþjóðlegum fjármálamörkuðum eftir hrun Silicon Valley bankans í Bandaríkjunum í síðustu viku og Signature bankans þar í landi um helgina. Bandarísk stjórnvöld gripu ekki inn í til að bjarga þessum bönkum sem teljast litlir á bandarískan mælikvarða þótt Silicon Valley bankinn hafi verið margfalt stærri en allir íslensku bankarnir til samans.
HSBC bankinn í Bretlandi kom viðskiptamönnum Silicon Valley þar í landi hins vegar til bjargar með því að taka starfsemina í Bretlandi yfir. Í gær skalf síðan fjármálaheimur Evrópu þegar Credit Suisse bankinn lenti í vanda. Seðlabanki Sviss brást skjótt við og lýsti yfir að bankinn fengi 54 milljarða dollara stuðning frá honum, sem svarar til 7.700 milljarða íslenskra króna eða rúmlega sexfaldra fjárlaga íslenska ríkisins.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagði eftir fund fjármálastöðugleikanefndar bankans í gær að ekki væri hægt að útiloka smitáhrif frá vandræðum bandarísku bankanna í alþjóðlega fjármálakerfinu. Kerfislega mikilvægir bankar í Bandaríkjunum stæðu hins vegar vel.
„En ég sé ekki beinlínis neitt kerfislegt áfall eins og 2008. Þrátt fyrir allt stendur bandaríska fjármálakerfið tiltölulega vel. Þeir bankar sem hafa lent í vandræðum eru þeir sem hafa verið með tiltölulega létt eftirlit,“ segir seðlabankastjóri.
Nýlega hefðu bandarísk stjórnvöld létt á eftirlitskröfum með minni bönkum. Eftirlit með íslensku bönkunum væri hins vegar almennt mun strangara.
„Þegar við endurbyggðum okkar kerfi eftir hrunið höfum við legið yfir helstu áhættuþáttunum. Reynt að byggja varnarlínur til að tryggja að okkar kerfi héldi. Ég held að íslenskir bankar búi við strangasta eftirlit sem þekkist á Vesturlöndum. Bæði hvað varðar eiginfjárkvaðir og annað. Takmarkanir á því hvað þeir geta gert. Við erum enn að herða á því núna með því að herða á þeim með eiginfjárkvaðirnar. Þannig að við trúum því að okkar varnarlínur haldi,“ sagði Ásgeir Jónsson.
Þarna vísaði hann til þess að fjármálastöðugleikanefnd ákvað í gær að hækka framlag fjármálastofnana í sveiflujöfnunarsjóð úr 2 prósentum í 2,5 prósent. Samkvæmt reglum tekur þessi ákvörðun gildi eftir tólf mánuði en hún setur kvaðir á bankanna að leggja aukið fé til hliðar til að mæta mögulegum áföllum. Þá dregur þessi ákvörðun úr útlánagetu bankanna.
Þegar kórónuveirufaraldurinn skall á fór Seðlabankinn í gagnstæða átt og felldi framlög í sveiflujöfnunarsjóð niður. Það var gert til að auka svigrúm bankanna til að koma fyrirtækjum og heimilum til aðstoðar. Nú vill Seðlabankinn hins vegar draga úr þenslu og eyðslu í þjóðfélaginu og um leið verðbólgu.