Körfubolti

Álftnesingar geta skrifað söguna í Forsetahöllinni í kvöld

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sjónvarpsmaðurinn og rithöfundurinn Kjartan Atli Kjartansson er þjálfari Álftaness sem getur komist upp í Subway-deildina í kvöld.
Sjónvarpsmaðurinn og rithöfundurinn Kjartan Atli Kjartansson er þjálfari Álftaness sem getur komist upp í Subway-deildina í kvöld. vísir/vilhelm

Álftanes getur brotið blað í sögu félagsins þegar það mætir Skallagrími í lokaleik 25. umferðar 1. deildar karla í körfubolta.

Ef Álftnesingar vinna tryggja þeir sér sigur í 1. deildinni og þar með sæti í efstu deild í fyrsta sinn í sögu félagsins.

Álftanes er með tveggja stiga forskot á Hamar á toppi deildarinnar og þarf aðeins einn sigur í síðustu þremur leikjum sínum til að tryggja sér sæti í Subway-deildinni.

Tölfræðin er með Álftnesingum í liði en þeir hafa unnið alla tólf leiki sína í Forsetahöllinni í 1. deildinni á tímabilinu.

„Taugarnar eru alveg þandar, þótt þetta sé deildarleikur. Þetta eru skrítnar aðstæður, að eiga þrjá leiki. En við nálgumst þetta eins og stórleik og það verður stemmning í húsinu, í Forsetahöllinni, þannig þetta verður vonandi skemmtilegt kvöld,“ sagði Kjartan Atli Kjartansson, þjálfari Álftaness, í samtali við íþróttadeild í dag.

En munu Álftnesingar nálgast þennan leik öðruvísi en aðra í ljósi þess hvað er undir?

„Já, ég er búinn að tala við reynslumeiri þjálfara en mig og fá ráðleggingar. Þetta eru óvenjulegar aðstæður að vera í en það hafa mjög margir leikir verið mjög mikilvægir núna. Þetta er bara einn af þeim en af því að þetta gæti komið í kvöld reiknar maður með að strákarnir í liðinu séu meira stemmdir en áður sem er gott.“

Efsta liðið í 1. deildinni fer beint upp í Subway-deildina en liðin í 2.-5. sæti fara í umspil um hitt sætið. Eins og staðan er núna fara Hamar, Sindri, Skallagrímur og Fjölnir í umspilið.

KR er fallið úr Subway-deildinni en ekki er ljóst hvaða lið fylgir þeim niður í 1. deildina.

Leikur Álftaness og Skallagríms hefst klukkan 19:15 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 5.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×