Körfubolti

Shawn Kemp sleppt úr fangelsi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Shawn Kemp var þekktur fyrir kraftmiklar troðslur.
Shawn Kemp var þekktur fyrir kraftmiklar troðslur. getty/Focus on Sport

Shawn Kemp, sem var ein skærasta stjarna NBA-deildarinnar á sínum tíma, hefur verið sleppt úr fangelsi og allar ákærur á hendur honum felldar niður.

Kemp var handtekinn á miðvikudaginn vegna skotárásar í Tacoma, Washington. Á myndbandi sem birtist af atvikinu sást Kemp skjóta á bíl á bílastæði.

Lögmaður Kemps hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem fram kom að brotist hafi verið inn í bíl Kemps og nokkrum hlutum stolið úr honum, meðal annars síma. Kemp rakti slóð símans og þegar hann reyndi að endurheimta hann var skotið á hann. Kemp svaraði þá í sömu mynt og í kjölfarið var hann handtekinn.

Kemp hefur nú verið sleppt úr haldi þar sem um sjálfsvörn var að ræða þegar hann skaut á bílinn.

Kemp, sem er 53 ára, er þekktastur fyrir árin sín hjá Seattle SuperSonics á 10. áratug síðustu aldar. Með hann og Gary Payton í broddi fylkingar komst liðið í úrslit NBA 1996 en tapaði fyrir Chicago Bulls, 4-2. Eftir að Kemp yfirgaf Seattle 1997 fjaraði ferill hans hægt og rólega út og hann lagði skóna á hilluna 2003.

Kemp hefur nokkrum sinnum komist í kast við lögin, meðal annars fyrir vörslu eiturlyfja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×