Körfubolti

Tryggvi og félagar unnu óvæntan sigur gegn Barcelona

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Tryggvi Snær Hlinason treður boltanum með tilþrifum í leiknum við heims- og Evrópumeistara Spánar á dögunum.
Tryggvi Snær Hlinason treður boltanum með tilþrifum í leiknum við heims- og Evrópumeistara Spánar á dögunum. VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Tryggvi Snær Hlinason og félagar hans í Zaragoza gerðu sér lítið fyrir og unnu afar óvæntan tveggja stiga sigur er liðið tók á móti Barcelona í spænsku ACB-deildinni í körfubolta í kvöld, 85-83.

Fyrir leik kvöldsins sat Barcelona í öðru sæti spænsku deildarinnar með 34 stig, jafn mörg og topplið Real Madrid. Börsungar hefðu því komið sér á topp deildarinnar með sigri, en Tryggvi og félagar sátu í 14. sæti, aðeins fjórum stigum fyrir ofan fallsvæðið.

Leikurinn tafðist nokkuð lengi þar sem gera þurfti hlé vegna tæknilegra örðuleika snemma í fyrsta leikhluta.

Því var þó kippt í lag og leikurinn gat haldið áfram. Tryggvi og félagar byrjuðu betur og leiddu með sjö stigum að fyrsta leikhluta loknum, en liðið stakk af í öðrum leikhluta og fór með 22 stiga forskot inn í hálfleikshléið, staðan 46-24.

Heimamenn í Zaragoza náðu mest 25 stiga forskoti í þriðja leikhluta, en Börsungar bitu frá sér og minnkuðu muninn niður í 15 stig áður en komið var að lokaleikhlutanum. Ekki tókst gestunum þó að brúa bilið í fjórða leikhluta og Zaragoza vann að lokum virkilega sterkan tveggja stiga sigur, 85-83.

Tryggvi átti fínan leik fyrir Zaragoza í kvöld og skoraði níu stig ásamt því að taka sjö fráköst. Þrátt fyrir sigurinn situr liðið enn í 14. sæti, nú með 14 stig og sex stigum fyrir ofan fallsvæðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×