Handbolti

„Það er alvöru mótbyr“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jónatan Magnússon var sáttur með framlag sinna manna í Garðabænum þótt úrslitin hafi ekki verið honum að skapi.
Jónatan Magnússon var sáttur með framlag sinna manna í Garðabænum þótt úrslitin hafi ekki verið honum að skapi. vísir/hulda margrét

Jónatan Magnússon, þjálfari KA, sagði að herslumuninn hefði vantað hjá sínum mönnum til að vinna Stjörnuna í kvöld. Garðbæingar sigruðu Akureyringa, 30-26.

„Það vantaði ekki mikið upp á. Þetta var hörkuleikur og við vorum vel inni í honum. Þetta voru bara nokkur atriði í sókninni, í yfirtölunni undir lokin,“ sagði Jónatan við Vísi eftir leik.

„Það er svolítið mótlæti og þá detta hlutirnir ekki með þér, fráköst og svona. Það er alvöru mótbyr. En margt í frammistöðunni var gott fannst mér. Það vantaði herslumuninn.“

Ekki var hægt að skynja uppgjöf í KA-mönnum í kvöld þótt illa hafi gengið að undanförnu.

„Mér fannst margt í leiknum okkar sem var gott, hvað varðar baráttu og menn að leggja sig fram. Það eru tvö til þrjú atriði sem manni líður eins og hafi fallið á móti okkur. En þú þarft líka að skapa það sjálfur. Við vorum sjálfum okkur verstir í ákvörðunum,“ sagði Jónatan.

„Við þurfum að skoða þennan leik og vinna í okkar hlutum áfram. Okkur vantar klárlega stig. Við ætluðum númer eitt að mæta til leiks og ekki missa hausinn eins og hefur gerst. Við höfum brotnað við fyrsta mótlæti en mér fannst það ekki gerast í dag. Það er framfaraskref. Við lögðum okkur virkilega vel fram og börðumst fyrir þessu. Það gekk ekki og þá þurfum við að reyna aftur í næsta leik.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×