Körfubolti

Sá elsti í sögunni til að skora yfir sjötíu stig í NBA-leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Liðsfélagar Damian Lillard hjá Portland Trail Blazers fagna honum eftir 71 stigs leikinn hans í nótt.
Liðsfélagar Damian Lillard hjá Portland Trail Blazers fagna honum eftir 71 stigs leikinn hans í nótt. AP/Steve Dykes

Damian Lillard setti bæði félagsmet og persónulegt met í sigri Portland Trail Blazers í NBA-deildinni í körfubolta í nótt.

Lillard skoraði 71 stig og þrettán þriggja stiga körfur í leiknum. Portland liðið endaði þarna tveggja leikja taphrinu með því að vinna 131-114 sigur á Houston Rockets.

Lillard varð aðeins sá áttundi í sögu NBA til að skora yfir sjötíu stig í einum leik og þar sem hann er orðinn 32 ára gamall er hann sá elsti til að ná því. Allir hinir hafa gert það fyrir þrítugsafmælið.

Lillard var reyndar ekki að bæta stigamet tímabilsins með þessari frammistöðu því Donovan Mitchell skoraði einnig 71 stig fyrir Cleveland Cavaiers fyrr á þessu tímabili.

Gamla persónulega met Lillard var 61 stig sem hann hafði náð tvisvar sinnum.

Lillard er aðeins sá fjórði sem kemst í sjötíu stiga klúbb nútímans en hinir eru Donovan Mitchell, Kobe Bryant og Devin Booker.

Honum vantaði líka aðeins einn þrist til að jafna NBA-met Klay Thompson sem skoraði fjórtán þrista í einum leik árið 2018. Stephen Curry (2016) og Zach LaVine (2019) hafa einnig náð því að skora þrettán þrista í leik.

Lillard yfirgaf völlinn þegar 44 sekúndur voru eftir og hefði því getað bætt við stigum.

Nú eru það aðeins Wilt Chamberlain (32) og Kobe Bryant (6) sem hafa átt fleiri sextíu stiga leiki í sögu NBA en þessi var númer fimm hjá Lillard.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×