Umfjöllun: ÍBV - Valur 29-28 | ÍBV komst upp að hlið Vals eftir spennutrylli

Hjörvar Ólafsson skrifar
Hrafnhildi Hönnu Þrastardóttur, leikmanni ÍBV, héldu engin bönd í þessum leik. 
Hrafnhildi Hönnu Þrastardóttur, leikmanni ÍBV, héldu engin bönd í þessum leik.  Vísir/Hulda Margrét

Harpa Valey Gylfadóttir tryggði ÍBV mikilvægan sigur þegar liðið tók á móti Val í toppslag Olís deildar kvenna í handbolta í Íþróttamiðstöðinni í Vestmannaeyjum í dag. ÍBV hefur þar af leiðandi haft betur í 13 leikjum í röð í deildinni og er nú komið upp að hlið Valsliðinu á toppi deildarinnar.

Það voru einmitt Valskonur sem voru síðasta liðið til þess að leggja Eyjakonur að velli en það var í október á síðasta ári. Það var alveg ljóst fyrir leikinn í dag að hart yrði barist og leikmenn myndu leggja allt í sölurnar fyrir þau stig sem í boði voru. 

Leikurinn var allt í senni jafn, spennandi og skemmtilegur allt frá upphafi til enda og aldrei munaði meira en tveimur mörkum á liðunum sem skiptust á að hafa forystuna. 

Sóknarleikur beggja liða var heilt yfir einkar vel útfærðir og margir leikmenn sem sýndu framúrskarandi frammistöðu í þessum frábæra toppslag. 

Valur og ÍBV eru nú jöfn að stigum með 30 stig hvort lið á toppi deildairnnar en IBV á eftir að spila fjóra leik á meðan Hlíðarendaliðið á þrjá leiki eftir af deildarkeppninni. 

Þá hefur ÍBV nú borið sigurorð í tveimur af þremur leikjum sínum við Val í deildinni á yfirstandandi keppnistímabili og er því í betri stöðu í innbyrðisviðureignum liðanna. Eyjaliðið er þar af leiðandi komið í bílstjórasætið í baráttunni um deildarmeistaratitilinn. 

Af hverju vann ÍBV?

Í raun var það meiri yfirvegun og betur upp sett lokasókn sem varð til þess að Harpa Valey fékk gott færi í vinstra horninu sem kláraði af stakri prýði á ögurstundu í leiknum. Ekkert annað skildi liðin að í þessum æsispennandi slag. 

Hverjar sköruðu fram úr?

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir og Sunna Jónsdóttir voru í algjörum sérflokki hjá heimkonum en Hrafnhildur Hanna skoraði 13 mörk og Sunna bætti svo níu mörkum við í sarpinn. 

Thea Imani Sturludóttir og Mariam Eradze drógu vagnin í sóknarleik Vals en Thea Imani skilaði 10 mörkum á töfluna og Mariam sjö. 

Bæði lið fengu fína markvörslu en Marta Wawrzykowska varði 10 skot í marki ÍBV og Sara Sif Helgadóttir 15 hjá gestunum.

Hvað gekk illa?

Ástu Björt Júlíusdóttur var vísað af velli með rauðu spjaldi undir lok fyrri hálfleiks og af þeim sökum mæddi meira á Birnu Berg Haraldsdóttur en Sigurður Bragason hefði líklega viljað í seinni hálfleik.

Skotnýting Birnu Berg var ekki upp á marga fiska en eitt skot af 10 þandi netmöskvana. Það mark kom hins vegar á mikilvægu augnabliki í leiknum og skömmu síðar sótti Birna Berg vítakast á lokakafla leiksins. 

Hvað gerist næst?

ÍBV sækir Hauka heim eftir landsleikjahléið sem fram undan er en liðin eigast við föstudaginn 10. mars. Valur fær hins vegar Stjörnuna í heimsókn í öðrum toppslag laugardaginn 11. mars. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira