Körfubolti

Sigurður segir Phoenix í dauða­færi og klár­lega lík­legast í vestrinu

Sindri Sverrisson skrifar
Kevin Durant hefur verið kynntur til leiks hjá Phoenix Suns en þó ekki spilað fyrir liðið vegna meiðsla.
Kevin Durant hefur verið kynntur til leiks hjá Phoenix Suns en þó ekki spilað fyrir liðið vegna meiðsla. Getty

Í Lögmálum leiksins á Stöð 2 Sport 2 í kvöld verður meðal annars rætt um lið Phoenix Suns og möguleika þess í NBA-deildinni í körfubolta eftir komu Kevins Durant frá Brooklyn Nets.

Durant fór yfir til Phoenix fyrr í þessu mánuði en á enn eftir að spila sinn fyrsta leik fyrir liðið vegna meiðsla.

Phoenix er í 5. sæti vesturdeildarinnar með 32 sigra og 28 töp, en að mati sérfræðinganna í Lögmálum leiksins er liðið núna orðið líklegast til afreka í vor, af liðunum í vesturdeildinni.

„Það er auðvelt að búa til mismunandi „line-up“ þarna vegna þess að Kevin Durant og Devin Booker þurfa ekkert rosalega mikla hjálp til að skora, og fáir eru betri til að finna mennina en Chris Paul. 

Og eins og við töluðum um Kyrie Irving og Luka Doncic [hjá Dallas Mavericks], sem standa, dripla og fara, þá eru Durant og Booker báðir leikmenn sem bara grípa og fara. Þeir munu alveg leyfa Chris Paul að dripla boltanum meirihlutann af tímanum. Þannig að allir fá að gera það sem þeir vilja,“ segir Sigurður Orri Kristjánsson í þættinum sem sýndur verður í kvöld.

Klippa: Lögmál leiksins - Umræða um Phoenix

„Ég heyrði Kevin Durant í viðtali fyrir stjörnuleikinn segja að þeir Chris Paul hefðu oft talað um það hvernig væri að spila saman. Þó að það sé sirka áratugur síðan þá held ég að þeir séu í dauðafæri. Ég held að þetta Phoenix-lið sé klár „favourite“ í vestrinu,“ segir Sigurður.

Lögmál leiksins eru á dagskrá klukkan 20 í kvöld á Stöð 2 Sport 2.


Lögmál leiksins er vikulegur þáttur um NBA-deildina sem er sýndur á mánudögum á Stöð 2 Sport 2. NBA-deildin er hluti af Sport Erlent sem kostar kr. 3.990 á mánuði. Smelltu hér til að kaupa áskrift.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×