Handbolti

Voru yfir í núll sekúndur en unnu samt leikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gróttumenn unnu ótrúlegan sigur á FH-ingum í Kaplakriknum í gær.
Gróttumenn unnu ótrúlegan sigur á FH-ingum í Kaplakriknum í gær. Vísir/Hulda Margrét

Grótta vann eins marks endurkomusigur á FH í Kaplakrika í gærkvöldi eftir að hafa verið fjórum mörkum undir þegar fimmtán mínútur voru eftir.

Birgir Steinn Jónsson skoraði sigurmarkið úr vítakasti þegar leiktíminn var liðinn.

Þetta var í eina skiptið sem Grótta var yfir í leiknum því FH komst í 1-0 í fyrstu sókn og var síðan komið í 4-1 eftir þrjár mínútur.

FH hélt forystunni allan tímann þangað til að Grótta náði að snúa við leiknum í lokin.

Það þýðir að Gróttuliðið var yfir í núll sekúndur af leiktímanum en vann engu að síður leikinn.

Birgir Steinn Jónsson skoraði fimmtán mörk í leiknum og þar á meðal var sigurmarkið úr lokaskoti leiksins sem kom af vítalínunni.

Birgir Steinn skoraði þrjú síðustu mörk leiksins og breytti með því stöðunni úr 35-33 fyrir FH í 35-36 fyrir Gróttu.

Hér fyrir neðan má sjá síðustu mínúturnar í leiknum.

Klippa: Síðustu mínúturnar í leik FH og Grótta



Fleiri fréttir

Sjá meira


×