Körfubolti

Michael Jordan gefur 1,4 milljarða króna í til­efni sex­tugs­af­mælis síns

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michael Jordan heldur upp á afmælið sitt með sérstökum hætti í ár.
Michael Jordan heldur upp á afmælið sitt með sérstökum hætti í ár. AP/Thibault Camus

Michael Jordan verður sextugur á föstudaginn og hann ákvað að það væri betra að gefa en þiggja í tilefni stórafmælisins. Hann hefur sett mörg met á ferlinum og enn eitt er núna fallið.

Jordan setti nýtt met með því að gefa góðgerðasamtökunum Make-A-Wish tíu milljónir dollara eða meira en 1,4 milljarða króna. Þetta er það mesta sem samtökin hafa fengið í 43 ára sögu þeirra.

Jordan segist vonast til þess, að með því að halda svona upp á afmæli sitt, þá muni hann hvetja aðra til að hjálpa til við að verða við óskum þeirra barna sem eiga enn eftir að fá ósk sína uppfyllta. Make-A-Wish sjóðurinn lætur óskir lífshættulegra veikra barna rætast.

„Það hefur verið heiður fyrir mig að vinna með Make-A-Wish samtökunum í 34 ár og hjálpa til að kalla fram bros og gleðja svo marga krakka. Að verða vitni af styrk þeirra og þrautseigju á svo erfiðum tímum hefur veitt mér innblástur,“ sagði Michael Jordan í fréttatilkynningu.

Jordan er nú eigandi NBA-liðsins Charlotte Hornets en hann studdi fyrst Make-A-Wish samtökin árið 1989.

Michael Jordan fæddist 17. febrúar 1963 og verður því sextugur á morgun.

Jordan er af flestum talinn vera besti körfuboltamaður allra tíma. Hann varð sex sinnum NBA-meistari með Chicago Bulls og tvisvar Ólympíumeistari með bandaríska landsliðinu.

Hann varð fimm sinnum kjörinn mikilvægasti leikmaður deildarinnar, tíu sinnum varð hann stigahæsti leikmaður deildarinnar, tíu sinnum var hann valinn í lið ársins og níu sinnum var hann valinn í besta varnarlið deildarinnar.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×