Skoðun

Að ýta kerfinu fram yfir þol­mörk þess

Finnur Th. Eiríksson skrifar

Það eru blikur á lofti. Á örfáum árum hefur stóraukin harka færst í samskipti ólíkra samfélagshópa. Háværu raddirnar hafa hlotið mestan hljómgrunn á meðan skynsemisraddirnar hafa verið kaffærðar.

Ætlun mín er ekki að gera lítið úr réttmætum kröfum um aukinn samfélagslegan jöfnuð. En þegar harkan er orðin slík að ekki er lengur hægt að setjast við samningaborðið fara að renna á mann tvær grímur. Það læðist að manni sá grunur að meginmarkmiðið sé ekki að krefjast réttlætis fyrir ákveðinn samfélagshóp. Markmiðið virðist öllu heldur vera að ýta kerfinu fram yfir þolmörk þess.

Þessar grunsemdir eru ekki úr lausu lofti gripnar. Það er alkunna að öfgafólk starfar innan raða Eflingar. Eðli málsins samkvæmt hafnar öfgafólk öllum lausnum sem byggja á málamiðlunum. Flókinn raunveruleikinn er smættaður í reyfarakennda baráttu góðs og ills. Með því hugarfari er hægt að réttlæta nánast hvað sem er, meðal annars pólitískar hreinsanir og jafnvel stjórnarbyltingar.

Í sögulegu samhengi hafa stjórnarbyltingar ekki átt sér stað á einni nóttu. Þær eiga sér skýran aðdraganda þar sem smám saman er grafið undan innviðum samfélagsins, meðal annars með verkfallsaðgerðum. Oft eiga slíkar byltingar sér stað þegar samfélagið er veikt fyrir, til dæmis í efnahagslægð, hungursneyð eða sjúkdómsfaraldri. Þeir sem þekkja söguna vita að flestar stjórnarbyltingar hafa falið í sér miklar hörmungar fyrir alla hlutaðeigandi.

Fullkomið réttlæti er ekki til í þessum heimi og þess vegna eru málamiðlanir nauðsynlegar. Vitanlega er eðlilegt að launþegar hafi verkfallsrétt. En þegar útópískar hugsjónir eða byltingarhugmyndir eru settar framar samfélagslegum stöðugleika er mál að linni. Dragist verkfallsaðgerðir á langinn er óhjákvæmilegt að það komi til inngrips stjórnvalda á einn eða annan hátt. Að lokum verða skynsemisraddirnar að yfirgnæfa þær háværu.

Höfundur er áhugamaður um samfélagsmál.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×