Handbolti

Sjáðu leikhléið sem kveikti í Framliðinu í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Einar Jónsson lét sína menn heyra það og tókst að koma þeim í rétta gírinn.
Einar Jónsson lét sína menn heyra það og tókst að koma þeim í rétta gírinn. Vísir/Hulda Margrét

Framarar tóku bæði stigin með sér úr Mosfellsbænum í Olís deild karla í handbolta í gærkvöldi en það leit ekki út fyrir það þegar tuttugu mínútur voru eftir af leiknum.

Afturelding var fimm mörkum yfir, 21-16, þegar Einar Jónsson, þjálfari Fram, tók leikhlé og þjálfarinn var allt annað en sáttur með sína menn.

Einar öskraði þarna svokallaða hreina íslensku, reyndar með smá ensku slettum, framan í sína stráka og var ekkert að hlífa neinum þótt þeir væru eitthvað yngri og óreyndari. Hann þurfti að vekja sína menn og gerði það með tilþrifum.

Viðbrögðin létu ekki bíða eftir sér því Framliðið snéri við leiknum á síðasta þriðjungi leiksins.

Fram vann lokakaflann 14-8 og þar með leikinn með einu marki, 30-29.

„Þetta var rosalegur leikur og þetta var kærkominn sigur. Þetta leit ekki vel út um miðjan seinni hálfleik en við þiggjum sigurinn með þökkum,“ sagði Einar Jónsson í viðtali við Vísi eftir leik.

Kollegi hans Gunnar Magnússon var aftur á móti langt niðri. „Það var óskiljanlegt hvernig við köstuðum leiknum frá okkur. Við vorum fimm mörkum yfir og með öll tök á öllum helvítis leiknum. Þetta var Íslandsmet í klúðri, hvernig við köstuðum boltanum frá okkur á ekki að sjást í Olís deildinni. Þetta voru það margir og daprir tæknifeilar og það var mjög erfitt að horfa upp á þetta og hvernig við köstuðum þessu frá okkur í seinni hálfleik,“ sagði Gunnar Magnússon í viðtali við Vísi eftir leik.

Hér fyrir neðan má sjá þetta leikhlé hjá Einari Jónssyni.

Klippa: Leikhlé Einars Jónssonar í MosfellsbænumFleiri fréttir

Sjá meira


×