Handbolti

Svaf ekki í viku vegna verstu meiðsla sem hann hefur lent í

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Róbert Aron Hostert verður ekkert með Val næstu vikurnar.
Róbert Aron Hostert verður ekkert með Val næstu vikurnar. vísir/hulda margrét

Róbert Aron Hostert, leikmaður Íslands- og bikarmeistara Vals, segir að meiðslin sem hann glímir nú við séu þau verstu sem hann hafi upplifað.

Róbert hefur gengið í gegnum ýmislegt á ferlinum en ekkert í líkingu við brjósklosið í hálsi sem hann glímir nú við.

„Þetta er sársaukafullt. Ég svaf ekki í viku. Þetta er held ég það versta sem ég hef lent í og ég hef lent í ýmsu. Ég vorkenni öllum sem hafa lent í brjósklosi í hálsi,“ sagði Róbert í samtali við Stefán Árna Pálsson í Sportpakkanum.

Róbert þarf að taka verkjastillandi lyf á hverjum degi í baráttunni við brjósklosið.

„Þú sérð það kannski bara. Ég varaði þig við því, að ég væri lyfjaður,“ sagði Róbert léttur þrátt fyrir allt. Hann veit ekkert hversu langan tíma það tekur að jafna sig á meiðslunum og tímabilinu er jafnvel lokið hjá honum þótt hann haldi í vonina.

„Ég segi bara nei. Úrslitakeppnin er minn tími og þá líkaminn á góðu róli. Ég stefni á að stytta þennan tíma. Ég er í óvissu. Þetta brjósklosdæmi er erfitt.“

Horfa má á viðtalið við Róbert í spilaranum hér fyrir ofan.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×