Handbolti

Gísli Þorgeir stoðsendingahæstur á HM

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gísli Þorgeir Kristjánsson gaf 39 stoðsendingar á HM.
Gísli Þorgeir Kristjánsson gaf 39 stoðsendingar á HM. vísir/vilhelm

Enginn leikmaður hefur gefið fleiri stoðsendingar á HM í handbolta en Gísli Þorgeir Kristjánsson.

Í sex leikjum Íslands á HM gaf Gísli 39 stoðsendingar, eða 6,5 að meðaltali í leik. Í 2. sæti á stoðsendingalistanum er Juri Knorr, leikstjórnandi þýska landsliðsins, með 37 stoðsendingar. Svíinn Jim Gottfridsson er með 36 stoðsendingar í 3. sæti.

Vert er að geta þess að tölfræðingar IHF reikna stoðsendingar sem sendingar sem gefa mark og fiskuð vítaköst sem gefa mark.

Gísli er í 7. sæti á listanum þegar mörk og stoðsendingar eru lagðar saman. Hann skoraði átján mörk auk stoðsendinganna 39 sem hann gaf. Samtals kom Hafnfirðingurinn því að 57 mörkum á HM.

Knorr er efstur á þessum lista með samtals 74 mörk og stoðsendingar. Hollendingurinn Kay Smits er annar með 68 mörk og stoðsendingar og Mathias Gidsel, skytta Dana, með 67 mörk og stoðsendingar.

Bjarki Már Elísson er næstmarkahæstur á HM með 45 mörk. Aðeins Sílemaðurinn Erwin Feucthmann hefur skorað meira, eða 46 mörk. Bjarki hefur þó lokið leik á HM og færist líklega eitthvað neðar á listanum á næstu dögum. 
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.