Umfjöllun og viðtöl: Njarðvík - Höttur 109-90 | Sprækir Hattarmenn létu Njarðvíkinga vinna fyrir kaupinu sínu

Siggeir F. Ævarsson skrifar
Njarðvíkingar fögnuðu sigri í sínum úsundasta leik í efstu deild í kvöld.
Njarðvíkingar fögnuðu sigri í sínum úsundasta leik í efstu deild í kvöld. vísir/hulda margrét

Í þúsundasta leik sínum í efstu deild unnu Njarðvíkingar góðan 19 stiga sigur gegn nýliðum Hattar, 109-90.

Njarðvíkingar tóku á móti sprækum nýliðum Hattar í Subway-deild karla í kvöld. Héraðsbúar með 5 sigra í sarpnum fyrir kvöldið sem og ákveðna niðurlægingu úr 4-liða úrslitum bikarins, þar sem þeir töpuðu fyrir Valsmönnum með tæpum 30 stigum, í leik þar sem þeir skoruðu aðeins 47 stig.

Gestirnir fóru ágætlega af stað í kvöld og virtust ekki vera með neina bakþanka í farteskinu úr bikarnum. Njarðvíkingurinn Adam Eiður Ásgeirsson, sem í dag er fyrirliði Hattar, fór fyrir sínum mönnum í upphafi leiks og gestirnir komust í 3-8. Njarðvíkingar voru þó ekki lengi að svara, jöfnuðu og komust yfir og létu forystuna ekki aftur af hendi.

Bæði lið létu þristana fljúga í upphafi leiks, Njarðvík 6/12 eftir fyrsta leikhluta og Höttur 4/8. Njarðvíkingar héldu uppteknum hætti fyrir utan línuna allan leikinn og bættu raunar bara í, enduðu með 56% nýtingu, sem er ansi erfitt við að eiga.

Þrátt fyrir að lokatölurnar gefi til kynna að sigur Njarðvíkinga hafi verið öruggur er því þó fjarri. Í hvert sinn sem þeir náðu að byggja upp smá forskot komu gestirnir með áhlaup og minnkuðu muninn. Þeir hófu seinni hálfleik af miklum krafti og minnkuðu muninn í 6 stig, og svo aftur í 9 stig í fjórða leikhluta. En í bæði skiptin náðu Njarðvíkingar að stöðva áhlaupin og höfðu að lokum 19 stiga sigur, lokatölur 90-109.

Af hverju vann Njarðvík?

Sóknarlega gekk flest upp hjá Njarðvík í kvöld. 56% þriggjastiga nýting úr 32 skotum ætti alltaf að duga til sigurs. Breidd hópsins hafði líka töluvert að segja í kvöld, en allir 12 leikmenn á skýrslu fengu að sjá gólfið og 10 þeirra settu stig á töfluna.

Hverjir stóðu upp úr?

Þeir Dedrick Deon Basile og Mario Matasovic fóru fyrir liði Njarðvíkur í kvöld. Mario stigaæstur með 26 stig og frábæra skotnýtingu, og bætti við 9 fráköstum, 3 stoðsendingum og 3 stolnum boltum. Basile stjórnaði leik Njarðvíkinga eins og herhöfðingi, endaði með 18 stig, 13 stoðsendingar, 5 fráköst og 10 fiskaðar villur.

Hjá Hetti var Timothy Guers iðinn við kolann í stigaskorun, endaði með 21 stig og 9 fráköst að auki. Adam Eiður Ásgeirsson átti einnig góðan leik og skilaði 17 stigum í hús.

Margur drukknar nálægt landi

Hattarmenn voru inn í þessum leik allan tímann og létu Njarðvíkinga vinna fyrir sigrinum í 40 mínútur. Áhlaupin þeirra velgdu Njarðvíkingum undir uggum en það dugði ekki til, þeir náðu aldrei til lands.

Hvað gerist næst?

Njarðvíkingar halda norður yfir heiðar og heimsækja Skagafjörðinn þann 26. janúar en Höttur fær Þór frá Þorlákshöfn í heimsókn sama kvöld.

„Við erum að verða betri sem lið og ég er ánægður með það en við þurfum að halda einbeitingu“

Benedikt Guðmundsson, þjálfari Njarðvíkur.Vísir/Hulda Margrét

Benedikt Guðmundsson þjálfari Njarðvíkur tók undir orð blaðamanns að Hattarmenn hefðu látið hans menn hafa töluvert fyrir sigrinum í kvöld.

„Klárlega, og bara drulluerfitt að spila við þá. Þeir eru mjög öflugir finnst mér og gera manni lífið leitt í 40 mínútur. Þeir eru öðruvísi lið heldur en flest önnur liðin í deildinni. Eru mjög „physical“ og líkamlega sterkir. Pakka vel í teiginn og það er erfitt að komast á hringinn. Sem betur fer tókst það að keyra leikinn upp á nokkrum köflum og fá þessi hraðaupphlaup. Ég er líka ógeðslega ánægður með bekkinn, fáum fullt af stigum af bekknum. Ég myndi segja að breiddin hafi talið vel í kvöld.“

Verður róteringin ekki svolítill höfuðverkur, nú þegar allir eru að verða heilir og hópurinn jafn djúpur og raun ber vitni?

„Hún verður það. En samkeppni er af hinu góða. Menn eru að koma til baka, aðrir búnir að vera að spila í þeirra fjarveru og standa sig vel. Þetta verður ekki auðvelt skal ég segja þér. Þetta er svona lúxusverkefni sem maður þarf að leysa. En á móti er þetta hörku samkeppni og þeir spila bara sem eru að standa sig best. Þannig að nú verða menn bara að vera á tánum.“

Hvernig líst Benna svo á framhaldið, nú þegar það eru þrír sigrar í röð komnir í hús?

„Bara vel, maður er alltaf brattur sérstaklega þegar maður er búinn að vinna þrjá í röð. En þetta er svo fljótt að breytast. Maður getur síðan lent í því að tapa næstu þremur og þarf þá að koma sér úr þeirri holu. Þú mátt aldrei missa einbeitingu í þessu. Nú bara reynir á hausinn hjá okkur. Við erum að verða betri sem lið og ég er ánægður með það en við þurfum að halda einbeitingu.“

Njarðvíkingar eru með tvo reynslubolta í hópnum á fimmtudagsaldri, þá Loga Gunnarsson og Nacho Martin. Benni hefur engar áhyggjur af álaginu á þá, nú þegar það er alvöru leikjatörn framundan?

„Nei, það er bara mitt að dreifa álaginu á þá. Ég geri mér grein fyrir því, sérstaklega þegar við vorum í þessum miklu meiðslum núna fyrir einhverju síðan, þá þurfti ég að spila mönnum meira en ég á að gera. En þegar við erum með fullmannað lið þá næ ég að stýra þessu betur og leyfa þá þessum eldri mönnum að fá sína hvíld og svona svo að ég held að það verði ekki vandamál, svo lengi sem við höldumst heilir!“

„Við tókum bara ákvörðun að ég myndi byrja hægt og rólega núna“

Haukur Helgi Pálsson.Vísir/Vilhelm

Haukur Helgi Pálsson leikmaður Njarðvíkur hefur verið að glíma við langvinn meiðsli nánast alveg síðan hann kom til Njarðvíkur sumarið 2021. Fyrir leikinn í kvöld hafði hann aðeins komið við sögu í 4 deildarleikjum en átti góða innkomu af bekknum að þessu sinni og fljótt á litið virtust meiðslin ekki vera að plaga hann.

Haukur setti 4 þrista í 5 tilraunum að þessu sinni, 12 stig frá honum í kvöld á rúmum 10 mínútum, sem verður að teljast í skilvirkara lagi. Það lá beinast við að spyrja hann hreint út: Hvernig er heilsan?

„Hún er allt í lagi. Ég alla vegana setti, eins og þú segir, fjóra þrista og það hjálpaði til. En það voru tveir þarna líka sem voru helvíti slakir. En þetta var bara mjög gott, ánægður með að vera kominn aftur.“

Endurkoma Hauks hefur verið langur vegur og hann hefur ítrekað meiðst aftur nýkominn af stað. En Haukur er bjartsýnn á að nú séu hlutirnir loksins að smella og hann er bjartsýnn á að verða kominn í topp form í vor þegar alvaran í úrslitakeppninni byrjar. Nú sé það þolinmæðin umfram allt annað sem gildi.

„Við tókum bara ákvörðun að ég myndi byrja hægt og rólega núna. Ég myndi ekki hoppa beint inn í 30 mínútur og meiðast svo aftur eftir tvo leiki. Nú erum við bara að gera þetta rétt, byrja hægt og rólega og koma manni í almennilegt stand og form og vera tilbúinn þegar alvaran byrjar.“

Njarðvíkingar rúlluðu á 11 leikmönnum í kvöld. Haukur nýtur sannarlega góðs af því hversu breiður leikmannahópur Njarðvíkur er, sem minnkar pressuna á að hann komi og skila 20-30 mínútum strax.

„Algjörlega. Nú held ég að það sé í fyrsta skipti sem við erum allir síðan án gríns ég man ekki hvenær. Við eigum að vera með frekar djúpan hóp finnst mér, 12 leikmenn sem geta bara spilað. Nú verður bara basl fyrir Benna að finna mínútur fyrir alla og sjá hvernig þetta virkar. En þetta er bara lúxusvandamál sem getur samt verið erfitt.“

Aðspurður sagðist Haukur Helgi var vel stemmdur fyrir framhaldinu, og sagði að hann hlakkaði sérstaklega til að heimsækja Skagafjörðinn í næstu umferð.

„Bara mjög vel. Það eru reyndar hörku rimmur núna, eigum Tindastól næst, síðan Stjörnuna og Grindavík. Þetta verða þrjár erfiðar vikur. En við erum tilbúnir í þetta og erum að verða betri með hverjum deginum.“

Það er þétt og erfitt prógram framundan hjá Njarðvíkum. Eru þá bara kælipokar og kaldi potturinn framundan hjá Hauki?

„Já örugglega, mér og einhverjum eldri þarna. Ég held að það séu flestir þarna í einhverjum kælipokum eftir leik.“ – sagði Haukur og hló. „En þetta verður gaman. Ég hlakka líka að sjá hvernig Tindastóll verður eftir breytingarnar og það er alltaf gott að koma í Síkið og spila. Það er alvöru stemming þar.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira