Körfubolti

KR og Njarð­vík spila bæði sinn þúsundasta leik í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
KR og Njarðvík hafa mæst oft enda einu liðin sem hafa verið með í úrvalsdeild frá því að hún var stofnuð.
KR og Njarðvík hafa mæst oft enda einu liðin sem hafa verið með í úrvalsdeild frá því að hún var stofnuð. Vísir/Bára Dröfn

Subway deild karla í körfubolta fer aftur af stað í kvöld eftir hlé vegna bikarúrslitavikunnar og þar ná tvö félög í deildinni sögulegum áfanga.

Njarðvík og KR hafa bæði verið í úrvalsdeild karla allt síðan hún var stofnuð haustið 1978.

Körfuboltáhugamaðurinn og tölfræðingurinn Rúnar Birgir Gíslason benti á það á Twitter að bæði félögin munu spila sinn þúsundasta leik í úrvalsdeild í kvöld.

Njarðvíkingar mæta Hetti klukkan 18.15 og verða því aðeins á undan í þúsundasta leikinn en klukkan 19.15 bætast KR-ingar í hópinn þegar þeir taka á móti Breiðabliki.

Njarðvíkingar hafa unnið 698 leiki af þessum 999 eða 69,9 prósent leikjanna en KR-ingar hafa unnið 626 af 999 eða 62,7 prósent sinna leikja.

Njarðvíkingar gætu því fljótlega orðið fyrsta félagið til að vinna sjö hundruð leiki í úrvalsdeild en auk KR (626) þá hafa aðeins Keflvíkingar (630) náð að vinna yfir sex hundruð leiki síðan úrvalsdeildin var stofnuð.

Keflvíkingar spila líka sögulegan leik í þessari umferð því leikur liðsins á móti Stjörnunni annað kvöld verður leikur númer níu hundruð hjá þeim í úrvalsdeild karla.

  • Flestir leikir í úrvalsdeild karla (frá 1978/79)
  • 1. Njarðvík 999
  • 1. KR 999
  • 3. Keflavík 899
  • 4. ÍR 857
  • 5. Grindavík 819
  • 6. Haukar 789
  • 7. Tindastóll 759
  • 8. Valur 669
  • 9. Skallagrímur 516
  • 10. Þór Ak. 511
  • 11. Snæfell 510
  • 12. Stjarnan 363
  • 13. Þór Þorl. 297

Tveir leikir verða sýndir beint á Stöð 2 Sport í kvöld. Fyrst leikur Njarðvíkur og Hattar klukkan 18.15 og svo leikur Þór Þorlákshafnar og Hauka klukkan 20.15. Strax á eftir verða svo Subway tilþrifin á dagskrá þar sem farið verður yfir alla leiki kvöldsins. Á morgun eru síðan tvær beinar útsendingar og svo Subway Körfuboltakvöld í kjölfarið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×