Körfubolti

Jón Axel með tíu stig í sigri Pesaro

Smári Jökull Jónsson skrifar
Jón Axel í leik með Pesaro.
Jón Axel í leik með Pesaro. Vísir/Getty

Jón Axel Guðmundsson átti fínan leik fyrir lið Pesaro í ítölsku úrvalsdeildinni í körfuknattleik í dag. Pesaro vann góðan tólf stiga útisigur á Givova Scafati. 

Jón Axel gekk til liðs við lið Pesaro fyrr í vetur eftir að hafa gert stutt stopp hjá uppeldisfélagi sínu Grindavík og leikið með þeim tvo leiki í haust.

Fyrir leikinn var lið Pesaro með átta sigra í fjórtán leikjum og sátu í 5.-7.sæti deildarinnar en Givova Scafati var í 11.sæti með sex sigra.

Leikurinn í dag var nokkuð sveiflukenndur. Jón Axel og félagar leiddu með tíu stigum eftir fyrri hálfleikinn en í þriðja leikhluta bitu heimamenn í liði Givova Scafati heldur betur frá sér og komu sér í þriggja stiga forystu fyrir lokaleikhlutann.

Þar voru síðan gestirnir sterkari. Þeir unnu leikhlutann 29-14 og leikinn með tólf stigum, lokatölur 81-69.

Jón Axel lék í 30 mínútur í leiknum og skoraði tíu stig, þar af þrjár þriggja stiga körfur. Hann var með 17 í +/- tölfræði sem þýðir að lið Pesaro vann mínúturnar sem hann spilaði með sautján stigum, það var það næsthæsta hjá liðinu í dag.

Pesaro er nú í 4.sæti deildarinnar, fjórum stigum á eftir toppliði Emporio Armani Milano.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×