Körfubolti

Arnar heldur með Hetti: Ég er utan af landi og held með lands­byggðinni

Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson skrifar
Arnar á hliðarlínunni í leiknum í dag.
Arnar á hliðarlínunni í leiknum í dag. Vísir/Bára Dröfn

Arnar Guðjónsson, þjálfari Stjörnunnar, var skiljanlega gríðarlega sáttur eftir sigurinn á Keflavík í undanúrslitum VÍS-bikarsins í kvöld. Stjarnan hefur gengið í gegnum nokkuð mikla leikmannaveltu að undanförnu en lét það ekki hafa áhrif á sig.

„Ég er glaður í dag, ég er glaður flestalla daga,“ sagði Arnar er hann settist niður með fréttamanni eftir leik.

„Þetta var erfiður leikur á móti vel þjálfuðu liði. Þetta hefði getað dottið hvoru megin sem var. Við náðum góðum kafla og þegar þeir finna góðan kafla þá er leikurinn sem betur fer að klárast, guði sé lof. Þessi leikur hefði ekki mátt vera mikið lengi, þeir voru að ná tökum á okkur.“

Góður kafli undir lok þriðja leikhluta lagði grunninn að þessum frábæra sigri Garðbæinga í Laugardalshöllinni.

„Það gerði gæfumuninn fyrir okkur að ná andrými, það skipti öllu. Mér fannst allir koma með eitthvað að borðinu hjá okkur.“

Ahmad Gilbert var fenginn frá Hrunamönnum í umtöluðum lánssamningi til að spila þessa bikarhelgi og hjálpa liðinu að vinna enn einn bikarmeistaratitilinn. Hann átti flottan leik í dag, líkt og Dagur Kár Jónsson og William Gutenius sem eru einnig nýir hjá félaginu.

„Hann var fínn í dag, eins og allt liðið. Ég er ánægður með hann,“ sagði Arnar um Gilbert, en núna klukkan 20:00 er hinn undanúrslitaleikurinn á milli Vals og Hattar að hefjast.

„Ég á örugglega eftir að horfa eitthvað aðeins á þetta. Mér er alveg sama um hvaða lið við fáum, en ég ætla ekki að ljúga neitt - ég held með Hetti. Ég held líka með Keflavík á móti Haukum. Ég er utan af landi og held með landsbyggðarliðunum. Ég er ættaður af Austurlandi og held með Hetti. Mér er samt sama hvort liðið við fáum, við þurfum bara að vinna þá sem bíða okkar.“

Arnar tók við þjálfun Stjörnuliðsins fyrir 2018-19 tímabilið og Garðbæjarliðið tapaði ekki bikarleik undir hans stjórn fyrstu tvö árin. Stjarnan varð bikarmeistari 2019 eftir stórsigur á Njarðvík í bikarúrslitaleiknum og varði titilinn árið eftir með því að vinna Grindavík með fjórtán stiga mun í bikarúrslitaleiknum.

Stjarnan vann fyrstu þrettán bikarleikina sína undir stjórn Arnars og hefur nú aftur unnið sjö bikarleiki í röð undir hans stjórn. Arnar á möguleika á því að stýra Stjörnunni til sigurs í bikarnum í fjórða sinn á laugardag.

„Þetta er ótrúleg tölfræði hjá Stjörnunni - ég er bara að þjálfa.“

„Stjarnan var búin að vinna þjár bikarmeistaratitla áður en ég kom. Félagið er búið að vinna tvo bikartitla í handboltanum og einn í fótboltanum. Þá er ég bara að tala um karlaboltann. Í karlaboltanum hefur Stjarnan verið með bikarhefð í öllum boltaíþróttum.“

Hvað er það sem skapar þessa bikarhefð?

„Að vinna bikarleiki. Ef þú tapar, þá verður hefðin ekki til,“ sagði Arnar léttur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×