Innlent

Borgin ekki enn greitt skaða­bætur vegna mis­taka barna­verndar árið 2013

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Konan sagðist í viðtali við Stöð 2 í desember árið 2019, eftir að dómur féll í héraði, vonast til að geta haldið áfram með lífið. Hún beið þess þá að fá að vita hvort Reykjavíkurborg ætlaði að áfrýja til Landsréttar. Hún er enn að bíða eftir því að borgin greiði henni skaðabætur, líkt og dómstólar hafa fyrirskipað.
Konan sagðist í viðtali við Stöð 2 í desember árið 2019, eftir að dómur féll í héraði, vonast til að geta haldið áfram með lífið. Hún beið þess þá að fá að vita hvort Reykjavíkurborg ætlaði að áfrýja til Landsréttar. Hún er enn að bíða eftir því að borgin greiði henni skaðabætur, líkt og dómstólar hafa fyrirskipað.

Reykjavíkurborg hefur ekki enn greitt konu skaðabætur sem Landsréttur dæmdi borgina til að greiða í júní 2021. Þá neitar borgin að afhenda konunni greinagerð dómkvaddra matsmanna um miska konunnar, sem borgin óskaði eftir.

Konan, sem vill ekki koma fram undir nafni, segir tafir á málinu gera sér ókleift að halda áfram með lífið.

„Það er ofboðslega erfitt að vera búin að vera í sjálfsvinnu í einhvern áratug, að reyna að byggja mig upp, þegar ég er svo alltaf tækluð og rifin niður aftur,“ segir konuna um upplifun sína af framkomu Reykjavíkurborgar.

„Ég upplifi þetta bara sem hreint ofbeldi. Það tekur ofboðslega mikið á mig í hvert einasta skipti sem það er hringlað í þessu eða einhverjar vendingar eiga sér stað. Þannig að mér þykir ofbelslega erfitt hvað þetta hefur dregist á langinn og þau þrjóskast við að semja. Það er búið að dæma í þessu á tveimur dómstigum og þau komast ekkert upp með að greiða þessar bætur. Þannig að það eina sem þetta gerir er að valda mér vanlíðan.“

Málið nær aftur til ársins 2013, þegar konan og maður hennar voru tilkynnt til Barnaverndar Reykjavíkur eftir að hafa leitað með níu mánaða gamlan son sinn á bráðamóttöku Landspítalans. 

Þau sögðu son sinn hafa dottið þegar hann reyndi að toga sig upp við borð og skollið á hnakkann þannig að mikill dynkur heyrðist. Hann hafi orðið hálfsljór í kjölfarið og kastað upp nokkrum sinnum. Í kjölfar rannsókna og skoðunar kom í ljós blæðing undir höfuðkúpu og blæðingar í augnbotnum, sem eru meðal einkenna svokallaðs „shaken baby syndrome“.

Vegna þessa var Barnavernd kölluð til, þar sem vísbendingar voru uppi um að barnið hefði verið beitt líkamlegu ofbeldi. Ákveðið var að vista barnið utan heimilis, fyrst á Vistheimili barna en síðar hjá föður- og móðurforeldrum barnsins.

Málið rataði inn á borð lögreglu um það bil fimm dögum eftir slysið, sem hóf rannsókn.

Foreldrar barnsins neituð ávallt að hafa valdið barninu skaða og gátu einnig gefið aðrar skýringar á meiðslunum auk fallsins; nokkrum dögum áður hafði matur staðið í drengnum og faðirinn þurft að halda honum á hvolfi og banka hraustlega í bakið á honum til að losa um aðskotahlutinn.

Þá voru sérfræðingar ekki á einu máli um að hægt væri að greina SBS útfrá einkennunum, meðal annars vegna þess að drengurinn hafði ekki fengið blæðingu í heilavef né heilabjúg og engar taugaskemmdir greinst.

Lögðu borgina í héraði og í Landsrétti

Drengurinn var vistaður utan heimilis fram til 9. október 2013. 

Fjölskyldan hafði allan þennan tíma dvalið á sama stað og drengurinn en ítrekað óskað eftir því að fá að flytja aftur heim. Ekkert hafði komið upp á og áhyggjur voru uppi af andlegri líðan eldra barns hjónanna við þessar aðstæður.

Barnavernd neitaði hins vegar alltaf og vísaði til þess að rannsókn málsins væri ekki lokið af hálfu lögreglu. 

Foreldrarnir höfðuðu síðar mál á hendur Reykjavíkurborg vegna seinagangs í málinu og höfðu betur. Borgin ákvað hins vegar að áfrýja til Landsréttar.

Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að Barnavernd Reykjavíkur hefði ekki uppfyllt rannsóknarskyldu sína.Vísir/Vilhelm

Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að ekki hefði verð unnt að draga óyggjandi ályktun um orsök áverkanna út frá þeim gögnum sem lágu fyrir og þá hefðu rannsóknir sýnt að varhugavert væri að byggja einungis á fyrrnefndum einkennum þegar ályktað væri um það hvort rekja mætti höfuðáverka barna til líkamlegs ofbeldis.

Þá sagði í niðurstöðu dómstólsins að það væri ekki að sjá að Barnavernd hefði leitast við að afla upplýsinga um ástand og aðstæður foreldranna eða tengsl þeirra við barnið, heldur aðeins byggt á þeim áverkum sem fundust á barninu við skoðun.

Þannig hefðu ekki verið færð rök fyrir því að nauðsynlegt hefði verið að vista barnið utan heimilis lengur en til 27. júní 2013 þegar vistun lauk á Vistheimili barna. Barnaverndaryfirvöld hefðu þannig gengið lengra en nauðsyn bar til í því að takmarka stjórnarskrárvarinn rétt friðhelgis fjölskyldulífs fjölskyldunnar.

Var það niðurstaða dómsins að Barnavernd hefði ekki uppfyllt rannsóknarskyldu sína, sem hefði annars orðið til þess að fjölskyldan hefði fengið að fara fyrr heim, og hefði ekki verið stætt á því að réttlæta áframhaldandi vistun utan heimilis með þeim rökum að niðurstöður lögreglurannsóknar lægju ekki fyrir.

Sonurinn þekki ekki að eiga „hrausta mömmu og lífsglaða“

Móðir drengsins krafðist viðurkenningar á því að Reykjavíkurborg bæri skaðabótaábyrgð á varanlegu tjóni sem hún varð fyrir eftir að hafa verið sökuð um ofbeldi gegn barninu sínu og eftir vistun barnsins utan heimilis. Glímdi hún meðal annars við þunglyndi, sem hafði aldrei áður upplifað.

Konan skilaði inn álitsgerð frá lækni sem mat varanlega örorku hennar 30 prósent. Í dómsorðinu sagði:

„Með framlagningu álitsgerðarinnar hefur stefnda leitt að því nægar líkur að hún hafi orðið fyrir varanlegu fjártjóni sem að einhverju leyti má rekja til þeirra ólögmætu aðgerða sem raktar hafa verið. Verður á þá kröfu fallist eins og í dómsorði greinir en þá er í engu slegið föstu um umfang bótaskyldunnar.“

Dómur Landsdóms féll 18. júní 2021 en það var ekki fyrr en í mars árið 2022 sem Reykjavíkurborg tilkynnti konunni að þess yrði krafist að dómkvaddir matsmenn legðu mat á tjón hennar. Matsferlið krafðist þess að konan afhenti persónuleg gögn, svo sem sjúkraskýrslur, og þá var hún kölluð í viðtal í nóvember síðastliðnum, þar sem farið var yfir líf hennar frá grunnskóla og fram til dagsins í dag, eins og hún orðar það.

Að sögn konunnar fékk lögmaðurinn hennar að vita í desember að borgin sætti sig ekki við niðurstöður matsins og neitaði að afhenda það. Lögmaðurinn lét hana hins vegar ekki vita fyrr en 2. janúar, vitandi hvaða áhrif fréttirnar myndu hafa á skjólstæðing sinn.

Konan segir afstöðu Reykjavíkurborgar þannig að verið sé að strá salti í sárið.

„Ég er veik fyrir vegna þeirra og mér finnst þetta bara vera áframhaldandi yfirgangur. Alveg eins og í barnaverndarmálinu upphaflega. Þá var ég algjörlega varnarlaus... ég ræð ekkert við heilt borgarbákn,“ segir konan, sem glímir meðal annars við svefn- og lystarleysi vegna málsins.

Hún segir andlegt ástand sitt þannig að eftir viðtalið í nóvember hafi hún verið uppgefin á sálinni og setið stjörf dögum saman. Nú, þegar útlit sé fyrir að Reykjavíkurborg ætli enn að tefja málið, upplifi hún algjört bjargarleysi.

Konan segir framgöngu borgarinnar hafa komið í veg fyrir að hún geti sagt skilið við þennan kafla í lífinu og haldið áfram. „Í hvert einasta skipti sem ég þarf að tala slaginn þá lendi ég á byrjunarreit,“ segir hún. 

Slysið á sínum tíma hafi ekki orðið til þess að valda syni hennar neinum líkamlegum skaða, „en hann þekkir hins vegar ekki að eiga hrausta mömmu og lífsglaða,“ segir hún. 

Framkoma borgarinnar sé til skammar.

Viðbót 11. janúar

Eva Bergþóra Guðbergsdóttir, samskiptastjóri Reykjavíkurborgar, vill koma því á framfæri að Reykjavíkurborg hafi greitt dómsaðilum eina milljón króna í miskabætur samkvæmt dómsorði í Landsrétti. Reykjavíkurborg muni ekki tjá sig um málið því það sé enn til meðferðar hjá Reykjavíkurborg.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×