Fyrir leikinn voru aðeins tvö stig sem skildu liðin að, en Selfyssingar sátu í næst neðsta sæti deildarinnar og KA/Þór sat sæti ofar.
Leikurinn var jafn og spennandi frá fyrstu mínútu og mikið var skorað í fyrri hálfleik. Gestirnir leiddu með tveimur mörkum þegar gengið var til búningsherbergja, staðan 17-19.
Norðankonur náðu svo mest fjögurra marka forskoti í síðari hálfleik og héldu því það sem eftir lifði leiks. Niðurstaðan varð því fjögurra marka sigur KA/Þórs, 28-32, og liðið er nú með átta stig í 5.-6. sæti deildarinnar.
Rut Jónsdóttir fór fyrir liði gestanna og skoraði ellefu mörk. Í liði Selfyssinga var Roberta Stropé atkvæðamest með tíu.