Innlent

Hrein­læti besta vopnið gegn kakka­lökkum

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar
Kakkalakkar halda sig oft á bakvið eldhúsinnréttingar þar sem er dimmt og hlýtt.
Kakkalakkar halda sig oft á bakvið eldhúsinnréttingar þar sem er dimmt og hlýtt.

Kakkalakkar hafa fundist á Íslandi í áratugi en undanfarna mánuði hafa þeir verið að sjást í meira mæli í íbúðarhúsum. Sérfræðingur í skordýrum segir almennt hreinlæti vera lykilatriði ef fólk vill ekki sjá þessi framandi dýr heima hjá sér. 

Fæstum þykir tilhugsunin um skríðandi skordýr bakvið eldhússkápana vera sérlega spennandi en meindýraeyðar á höfuðborgarsvæðinu hafa verið að sjá kakkalakka í meira mæli undanfarið en áður hefur tíðkast. Gísli Már Gíslason, skordýrasérfræðingur, segir nokkrar tegundir kakkalakka lengi hafa lifað hér á landi.

„Það eru að minnsta kosti þrjár eða fjórar tegundir sem eru búnar að vera landlægar núna í að minnsta kosti 80 ár.“

Kakkalakkar berast hingað til lands með innflutningi á vörum.

„Þeir berast með varningi til landsins, þetta er það stórt dýr og þeir eru ekki góð flugdýr svo þeir berast ekki sjálfir, þeir geta ekki flogið milli landa. Þeir geta flogið samt.“

Kakkalakkar kunna ekki vel við sig í kulda og halda sig þar sem er hlýtt allan sólarhringinn.

„Þeir fundust lengi sko eins og annars staðar í Evrópu á stöðum þar sem var alltaf hlýtt í upphafi tuttugustu aldarinnar eins og í bakaríum og á svoleiðis stöðum. En svo með venjulegri húshitun þá koma þeir upp í húsum og sumar tegundir eru dreifðar um allt land. Eru í þéttbýli víða.“

Hvað getur fólk gert til þess að forðast það að finna þessi dýr heima hjá sér?

„Það er bara almennur þrifnaður. það þarf þess vegna að ryksuga kannski eldhússkúffur öðru hvoru þar sem eru matvæli, loka matvælum í krukkum eða í geymslum þar sem eru lok og skordýr komast ekki í.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×