Körfubolti

NBA kallaði 71 stigs manninn inn í lyfjapróf daginn eftir leikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Donovan Mitchell er hér fagnað af liðsfélögum sínum í Cleveland Cavaliers eftir að hafa skorað 71 stig í endurkomusigri liðsins.
Donovan Mitchell er hér fagnað af liðsfélögum sínum í Cleveland Cavaliers eftir að hafa skorað 71 stig í endurkomusigri liðsins. AP/Ron Schwane

Donovan Mitchell átti rosalegan leik í NBA-deildinni í körfubolta í fyrrinótt þegar hann skoraði 71 stig í endurkomusigri Cleveland Cavaliers á Chicago Bulls.

Mitchell er mjög öflugur leikmaður en það bjuggust aftur á móti örugglega fáir við því að hann yrði fyrsti leikmaðurinn í næstum því sautján ár til að skora 71 stig í einum og sama leiknum.

Það hafði ekki gerst síðan Kobe Bryant skoraði 81 stig fyrir Los Angeles Lakers á móti Toronto Raptors í janúar 2006.

Mitchell setti þarna stigamet hjá Cleveland Cavaliers og varð aðeins sjöundi leikmaðurinn í sögunni til að skora sjötíu stig í einum leik í NBA.

„Þetta er algjör klikkun ef ég segi alveg eins og er,“ sagði Donovan Mitchell sem skoraði 55 stig í seinni hálfleik og framlengingu.

„Ég hef alltaf trúað því að ég gæti verið einn af bestu leikmönnunum í deildinni og ég verð að halda áfram vinnunni. Þetta eru stór tímamót fyrir mig en allir hinir sem hafa náð þessu hafa unnið titilinn og það er aðalmarkmið mitt,“ sagði Mitchell.

Hann var með 28,0 stig að meðaltali í leik fyrir leikinn en hækkaði meðalskor sitt upp í 29,3 stig á einu kvöldi.

Forráðamenn NBA-deildarinnar voru ekki alveg vissir um að Mitchell hafi gert þetta án aðstoðar því leikmaðurinn lét vita af því að strax morguninn eftir voru hann og liðsfélagarnir í Cleveland Cavaliers teknir í lyfjapróf.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×