Sænskir fjölmiðlar greindu frá því í gær að leikmenn yrðu skikkaðir í reglulegar skimanir; áður en mótið hefst, fyrir milliriðil, og fyrir átta liða úrslitin. Greinist menn jákvæðir fara þeir í fimm daga einangrun og mega ekki snúa aftur til móts við liðsfélaga fyrr en þeir greinast neikvæðir fyrir veirunni.
@ihf_info are you joking with the covid-19 restrictions for the WC 2023? Are you trying to destroy our sport? Handball friends What to do? We gotta stop this!
— Björgvin Páll Gústavsson (@BjoggiGustavs) January 3, 2023
Björgvin Páll ritaði á Twitter í morgun og merkir Alþjóðahandknattleikssambandið, IHF, í færslunni þar sem segir:
„Eruð þið að grínast með þessar Covid-19 takmarkanir fyrir HM 2023? Eruð þið að reyna að eyðileggja íþróttina okkar? Handboltavinir… Hvað eigum við að gera? Hvernig komum við í veg fyrir þetta?“
Björgvin Páll er eflaust minnugur síðasta móts, EM í fyrra, þar sem hann sjálfur þurfti að vera í einangrun um hríð, sem og fjölmargir aðrir leikmenn íslenska liðsins. Töluvert var um breytingar á leikmannahópi liðsins á meðan því móti stóð sökum smita innan hópsins.
Takmarkanir í gestgjafalöndunum, Svíþjóð og Póllandi, eru litlar sem engar en regluverkið sem um ræðir kemur frá IHF. Svíinn Michael Appelgren segir mótsstjórnir hafa lítið um málið að segja og að þær þurfi að lúta tilskipunum frá alþjóðasambandinu.
Íslenski hópurinn kom saman til æfinga í gær og hefur leik gegn Portúgal þann 12. janúar. Ungverjaland og Suður-Kórea eru einnig í riðli Íslands. Liðið spilar tvo æfingaleiki við Þýskaland um komandi helgi í aðdraganda móts.