Íslenski boltinn

Fagn ársins valið: „Þetta var mjög stórt í fótboltasamfélaginu“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Kristall Máni Ingason átti fagn ársins að mati sérfræðinga Sportsíldarinnar.
Kristall Máni Ingason átti fagn ársins að mati sérfræðinga Sportsíldarinnar. Vísir/Hulda Margrét

Karlalið Víkings í fótbolta var til umræðu í Sportsíldinni á gamlársdag, þar sem íþróttaárið var gert upp. Einn leikmanna liðsins átti fagn ársins.

Alls léku Víkingar átta Evrópuleiki á tímabilinu sem hófst á sigrum á Levadia Tallinn frá Eistlandi og Inter Escaldes frá Andorra. Við tók ærið verkefni gegn Svíþjóðarmeisturum Malmö.

„Þessir leikir á móti Malmö voru algjört ævintýri, þeir voru hársbreidd frá því á móti besta liði í Svíþjóð,“ segir Jóhann Gunnar Einarsson í þættinum.

Klippa: Sportsíldin: Kristall Máni átti fagn ársins

Í leiknum við Malmö ytra fékk Kristall Máni Ingason umdeilt gult spjald fyrir að sussa á áhorfendur Malmö eftir að hann skoraði jöfnunarmark í leiknum. Kristall hafði þegar fengið gult spjald í leiknum og fékk seinna gula spjaldið sitt, og þar með vísað af velli, fyrir sussið.

„Þetta varð til þess að allir fögnuðu á næstu krakkamótum með því að sussa. Þetta var mjög stórt í fótboltasamfélaginu,“ segir Jóhann Gunnar.

Þáttastjórnandinn Kjartan Atli Kjartansson greip það á lofti: „Sussið er fagn ársins“.

Malmö vann þann leik gegn 10 Víkingum 3-2 ytra og liðin gerðu svo 3-3 jafntefli hér heima. Víkingur féll þar með út úr Meistaradeild Evrópu en færðist yfir í Sambandsdeildina. Þar slógu þeir The New Saints frá Wales úr keppni áður en Lech Poznan frá Póllandi reyndust of stór biti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×