Handbolti

Vissi að eitthvað væri í loftinu þegar þeir hittu Maradona og Ronaldinho fyrir Póllandsleikinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson á myndir af sér með Ronaldinho og Diego Maradona. Þær voru teknar sama daginn.
Guðmundur Guðmundsson á myndir af sér með Ronaldinho og Diego Maradona. Þær voru teknar sama daginn. vísir/getty/vilhelm

Fyrir leikinn fræga gegn Póllandi á Ólympíuleikunum í Peking hittu Guðmundur Guðmundsson og Gunnar Magnússon tvo af bestu fótboltamönnum allra tíma. Þá vissi Guðmundur að eitthvað sérstakt væri í loftinu.

Guðmundur var gestur sjötta þáttar Stórasta landsins, hlaðvarpsþáttaraðar Stefáns Árna Pálssonar um framgöngu íslenska karlalandsliðsins í handbolta á Ólympíuleikunum í Peking 2008. Sem frægt er vann Ísland silfur á leikunum.

Í átta liða úrslitunum mætti íslenska liðið því pólska. Íslendingar höfðu átt í vandræðum með Pólverja og töpuðu meðal annars fyrir þeim á HM 2007 og í umspili fyrir Ólympíuleikana vorið 2008. En í Peking snerist dæmið við. Guðmundur segir að hann hafi fengið eins konar skilaboð frá umheiminum fyrir leikinn, ef svo má að orði komast.

„Dagurinn fyrir Pólverjaleikinn var merkilegur þar sem við sögðum: þetta er bara merki. Við Gummi vorum að labba í Ólympíuþorpinu þegar við mættum Ronaldinho sem var stórstjarna á þeim tíma. Við tókum mynd af okkur með honum,“ sagði Guðmundur.

„Svo fórum við úr þorpinu og vorum að skoða eitthvað og þá hittum við [Diego] Maradona. Við kunnum varla við að láta taka mynd af okkur með honum en gerðum líka, þennan sama dag. Við sögðum að þetta væri eitthvað merki; eitthvað stórkostlegt væri að fara að gerast. Svo var Pólverjaleikurinn daginn eftir.“

Íslendingar unnu Pólverja, 32-30, í leik þar sem hin fræga Peking-vörn varð til. Ísland sigraði svo Spán, 36-30, í undanúrslitunum en tapaði fyrir Frakklandi, 28-23, í úrslitaleiknum.

Hlusta má á Stórasta landið í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×