Enski boltinn

Haaland slátraði rúmlega 20 ára gömlu meti

Valur Páll Eiríksson skrifar
Haaland svoleiðis raðar inn.
Haaland svoleiðis raðar inn. Getty Images

Erling Haaland skoraði tvö marka Manchester City í öruggum 3-1 sigri á Leeds United í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í gær. Hann setti þar með met í deildinni.

Haaland var að spila sinn fjórtánda leik á leiktíðinni en síðara mark hans í leiknum var hans tuttugasta í deildinni. Fáheyrt er að leikmaður sé svo fljótur í 20 mörkin en hann er lang fljótastur í sögunni til að ná því í ensku úrvalsdeildinni.

Hann bætir met Kevin Phillips sem var fyrir gærdaginn sneggstur í 20 mörk. Hann gerði það í 21 leik leiktíðina 1999-2000 þar sem hann vann gullskóinn með 30 mörk sem leikmaður Sunderland.

Andrew Cole hafði afrekað það í 23 leikjum og þeir Ruud van Nistelrooy, Diego Costa og Tony Yeboah í 26 leikjum.

Haaland er því farinn að slá mörgum af helsu markaskorurum í sögu ensku úrvalsdeildarinnar við og er erfitt að sjá fyrir endann á markasúpunni hjá þeim norska.

Hann væri þá þegar búinn að tryggja sér gullskóinn leiktíðina 2008-09 þar sem enginn náði í 20 mörkin. Nicolas Anelka hlaut gullskóinn það ár er hann skoraði 19 mörk en Cristiano Ronaldo skoraði 18 og Steven Gerrard 16.

Manchester City eltist við Arsenal sem leiðir deildina með 40 stig. City á titil að verja og er með 35 stig í öðru sætinu, tveimur á undan Newcastle sem er í því þriðja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×