Handbolti

Bræðurnir fengu báðir að finna fyrir því í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Benedikt Gunnar Óskarsson fékk þungt höfuðhögg í leiknum.
Benedikt Gunnar Óskarsson fékk þungt höfuðhögg í leiknum. S2 Sport

Valsbræðurnir Arnór Snær Óskarsson og Benedikt Gunnar Óskarsson fengu heldur betur að finna fyrir því í seinni hálfleik í Evrópuleik Valsmanna í Ungverjalandi í gær.

Valsliðið var hársbreidd frá því að vinna Ferencváros öðru sinni í Evrópudeildinni en varð á endanum að sætta sig við 33-33 jafntefli.

Benedikt Gunnar Óskarsson fékk mjög þungt höfuðhögg eftir að hafa reynt ótrúlega björgun í hraðaupphlaupi Ungverjanna og Ungverjinn Dávid Debreczeni fékk rautt spjald fyrir að brjóta mjög illa á Arnóri undir lok leiks.

Saman voru þeir bræður með 13 mörk úr nítján skotum í leiknum en Benedikt skoraði átta mörk og Arnór var með fimm mörk. Benedikt Gunnar nýtti átta af níu skotum sínum utan af velli en klikkaði hins vegar á tveimur vítaskotum.

Benedikt skall með hnakkann í gólfið eftir að hafa reynt að komast inn í sendingu Ungverjanna í hraðaupphlaupi. Hann þurfti skiljanlega að setjast á bekkinn enda höggið þungt.

Debreczeni braut síðan mjög illa á Arnóri sem fékk bæði víti og rautt spjald á hann þegar um fimm mínútur voru eftir af leiknum.

Bæði Arnór Snær og Benedikt Gunnar komu aftur inn í leikinn og skoruðu mark eftir þessi þungu högg.

Hér fyrir neðan má sjá atvikin tvö.

Klippa: Þessi þungu högg ValsmannaFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.